135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:38]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi þá veldur hver á heldur. Auðvitað er afkoma sveitarfélaganna misjöfn. Mörg þeirra eru ágætlega rekin en sum þeirra í erfiðleikum, ekki vegna þess að þau hafi ekki verið vel rekin heldur einfaldlega, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á, að það hafa verið erfiðleikar í atvinnulífi. Við vitum það að hagvexti er misjafnlega dreift yfir landið. Ákveðin svæði á Íslandi hafa ekki tekið þátt í þeirri uppsveiflu sem hefur verið annars í landinu.

Þess vegna hefur ríkisstjórnin gripið til mótvægisaðgerða. Þess vegna hefur ríkisstjórnin aukið ríkisútgjöldin umfram það sem margir mundu segja að væri, við skulum segja, varkár stefna. Ég held að menn hafi farið út á ystu mörk í útgjöldum úr ríkissjóði við þessar aðstæður en það er sérstaklega vegna þess að það er að reynt er að koma til móts við þann vanda sem er víða úti á landi.

Ég gæti nefnt svæði sem hv. þingmaður þekkir ágætlega, Norðvesturland. Þar hefur á mörgum svæðum reynt mjög á þanþol heimamanna. Því er reynt að mæta með auknum fjárfestingum í menntamálum, í vegamálum o.s.frv. Þetta þýðir að útgjaldastigið er orðið mjög hátt og mér er til efs að menn geti gengið mikið lengra áður en hafa þarf verulegar áhyggjur af því hve miklum fjármunum við eyðum úr ríkissjóði. Það eru takmörk fyrir því og ég held að við séum komin að ystu mörkum hvað það varðar.