135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:07]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að verja Grímseyjarferjumálið, enda lítill aðili að því. Ég hef hins vegar skilið það sem svo að Grímseyjarferjan sé millifærð með svipuðum hætti og þegar við leiðréttum Háskóla Íslands um 5 millj. kr. og færðum yfir á Fræðslumiðstöð Vestfjarða sömu upphæð vegna þess að það var fært undir vitlausan lið. Þarna er verið að millifæra af ákveðnum inneignum Vegagerðarinnar yfir á nýjan lið sem heitir Ferjur. Það er gert með formlegum hætti þannig að ég sé ekki að eðlismunur sé á þessu tvennu. Það er ekkert verið að fara í felur með eitt eða neitt því að um er að ræða klárar færslur á upphæðum á milli liða.

Mismunandi afstaða varðandi söluna á Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er fyrst og fremst fólgin í mismunandi viðhorfum til nýrrar ríkisstjórnar. Ég deili auðvitað ekki vantrausti hv. þm. Jóns Bjarnasonar á ríkisstjórnina, að hún muni fara með sama hætti í sölu eða einkavæðingu á Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og hann hefur áhyggjur af. Ég treysti því að það verði ekki gert og veit að við munum væntanlega stoppa það ef svo yrði. Ég hef því ekki horft á þetta sem eitt af stóru atriðunum í fjáraukalögum eða fjárlögum. Ég treysti því að það verði skoðað í rólegheitum hvort sveitarfélögin vilja eignast þennan hlut eða ekki, þá er heimildarákvæði fyrir því, en ekki verði útboð þar sem aðkoma sveitarfélaganna verði bönnuð.

Nú er komin ný ríkisstjórn, hv. þm. Jón Bjarnason, og þér er alveg óhætt að treysta því að sú ríkisstjórn mun standa undir nafni.