135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:31]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að kalla samgöngunefnd Alþingis merkilegustu nefnd þingsins, það er gott að fá staðfestingu á því.

Ég get alveg komið í þann leiðangur með hv. þingmanni að fara í gagngerar endurbætur á ýmsum sveitavegum, eins og ég hygg að hann hafi orðað það í máli sínu, en þá treysti ég jafnframt á það að hv. þingmaður komi í þann leiðangur með mér að tryggja lagningu Sundabrautar sem ég gat um í ræðu minni, að ef allt gengur að óskum verði hægt að hefja undirbúning að lagningu Sundabrautar 2009. Ég treysti þá á að hv. þm. Jón Bjarnason styðji mig í því máli eins og ég skal styðja hann sem formaður samgöngunefndar í lagningu sveitavega víða um landið.

Varðandi almenningssamgöngur sem hv. þingmaður kom hér inn á vil ég vekja athygli hans á því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega talað um eflingu almenningssamgangna. Það er sérstaklega talað um að það þurfi að gera átak á höfuðborgarsvæðinu í almenningssamgöngum og að ríkisvaldið muni koma til móts við sveitarfélögin varðandi almenningssamgöngur. Ég vil líka benda hv. þingmanni á að fyrsta málið sem ég flutti hér á Alþingi sem nýr þingmaður var einmitt þingmál um forgangsakreinar strætisvagna í umferðinni. Það mál er núna í umsagnarferli og kemur væntanlega inn til þingsins mjög fljótlega. Almenningssamgöngur standa mér mjög nærri og ég heyri að sama gildir um þingmanninn.