135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:53]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman hennar innlegg í umræðuna en kemst þó ekki hjá því að gera nokkrar athugasemdir við það sem hún setti fram.

Í fyrsta lagi nefndi hún að greinilega væri einhver skekkja innbyggð í fjárlagagerðina og mér þætti vænt um að fá að heyra skoðanir hennar á því hvar sú skekkja liggur í stuttu máli. Bróðurpartur af útgjöldum stofnana eru laun og launatengd gjöld. Liggur skekkjan þar?

Hv. þingmaður kom fram með þá skoðun að ekki væri hægt að ætlast til að forstöðumenn stofnana spöruðu endalaust í rekstri sínum. Það kann að vera rétt við fyrstu sýn en engu að síður gangast forstöðumenn ríkisstofnana undir ákveðnar skyldur og ábyrgð þegar þeir taka við starfinu og bera að sjálfsögðu ábyrgð að lögum að halda fjárlög.

Það kom hins vegar fram í máli Ríkisendurskoðunar þegar hún mætti á fund til fjárlaganefndar að gagnrýni þeirra á framkvæmd fjárlaga hefur meira beinst að forstöðumönnum stofnana en að yfirstjórnum ráðuneyta. Gefa ber orðum Ríkisendurkoðunar gaum þar sem fyrir liggur í fjárlagaferlinu og reglum sem um það gilda að viðkomandi ráðuneyti eru ekki bara yfirmenn stofnana að því er snertir faglega þætti í rekstri þeirra. Þau eru einnig yfir öllu því sem lýtur að fjárumsýslu viðkomandi stofnana þannig að þar liggur yfirábyrgðin, í stjórnum ráðuneyta og ber að undirstrika það.