135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

félagsleg aðstoð.

50. mál
[21:01]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir stuttu frumvarpi sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni, um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Í frumvarpinu er lagt til að breyta 5. gr. núgildandi laga á þann veg að greinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að greiða umönnunargreiðslur skv. 4. gr. til maka elli- eða örorkulífeyrisþega, sem dvelst í heimahúsi, eða öðrum nákomnum lífeyrisþeganum sem annast lífeyrisþegann. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

2. gr. frumvarpsins segir að lög þessi öðlist þegar gildi.

Núverandi lagaákvæði í 5. gr. er rýmkað nokkuð með frumvarpi þessu. Í fyrsta lagi verða heimilar umönnunargreiðslur til annarra en þeirra sem eiga sameiginlegt lögheimili með elli- eða örorkulífeyrisþeganum og er þá miðað við að sá sem umönnunargreiðslur fær sé nákominn lífeyrisþeganum, ættingi eða náinn vinur. Í öðru lagi eru lagðar niður núverandi makabætur og umönnunarbætur og þess í stað lagt til að teknar verði upp umönnunargreiðslur skv. 4. gr. laganna. Við það hækka greiðslurnar úr því að vera allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga eða úr 82.700 kr. í allt að 96.978 kr. á mánuði. Loks er í þriðja lagi fellt úr gildandi lögum skilyrði um að sérstakar aðstæður þurfi að vera fyrir hendi og þannig verður heimild laganna rýmri en áður.

Breytingarnar í frumvarpinu munu sérstaklega gagnast aðstandendum alzheimer-sjúklinga og öðrum þeim sem þurfa stöðuga umönnun og athygli annarra og eru auk þess í takt við sjálfsagðar kröfur sem nú eru uppi um að öldruðum verði gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili og auka með þeim hætti lífsgæði þeirra.

Þrátt fyrir nokkra hækkun á greiðslum verður kostnaður við umönnun á hverjum mánuði einungis sem svarar einnar viku kostnaði við hjúkrunarrými og því má leiða að því sterkar líkur að umrædd breyting leiði til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Á síðasta ári voru greiddar samtals 92 millj. kr. til 125 einstaklinga í makabætur og umönnunarbætur. Þær greiðslur hefðu orðið um það bil 107 millj. kr. ef gilt hefði fjárhæðin í frumvarpinu. Rýmkun á heimild laganna mun vafalaust fjölga þeim sem fá umönnunargreiðslur, enda til þess ætlast. Ekki er unnt að leggja mat á þann kostnað að svo stöddu né þann sparnað fyrir ríkissjóð sem hlýst af því að viðkomandi mun líklega dvelja lengur í heimahúsi en ella. Þykir því rétt að hafa lagaákvæðið í formi heimildar um sinn.

Og lýkur þar með greinargerðinni sem fylgir með þessu frumvarpi. Ég vil, virðulegi forseti, bæta því við að lokum að mér finnst ástæða til að skoða frekar útfærslu á þessu ákvæði í frumvarpinu í ljósi frumvarps sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og var rætt í þingsölum í gær um breytingar á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Þar er kynnt til sú tillaga ríkisstjórnarinnar að foreldrar sem annast börn sem þannig er ástatt um geti fengið greiðslur úr ríkissjóði sem komi í stað launa sem þeir verða af vegna þess að þeir geti ekki lengur sinnt starfi sínu og að ríkið greiði allt að 80% af þeim launum sem viðkomandi foreldri hefur haft á almennum vinnumarkaði, þó með tiltekinni hámarksfjárhæð á mánuði.

Mér finnst þetta að mörgu leyti hliðstæður tilgangur og í frumvarpinu sem við ræddum í gær og því eðlilegt að skoða hvort ekki væri rétt að samræma greiðslur úr ríkissjóði í þessum tveimur tilvikum. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er sett lágmark á greiðslur til foreldra, þ.e. 130 þús. kr. á mánuði sem er verulega hærri fjárhæð en við leggjum til í frumvarpi okkar um breytingar á lögum um félagslega aðstoð. Ég mælist til þess af nefndinni sem fær málið til athugunar að hafa í huga að gætt verði samræmis við greiðslu úr ríkissjóði milli þessara tveggja lagabálka.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu að hafa fleiri orð til að mæla fyrir þessu frumvarpi. Það er stutt og skýrt og hefur augljósan tilgang. Ég hygg að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um að hverjum málið beinist og í hvaða tilgangi það er lagt fram. Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til félags- og tryggingamálanefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr.