135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:07]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég minni á að fíkniefnavandinn er víðfeðmur. Þetta er stórt mál og þess vegna einmitt hefur hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir beðið um utandagskrárumræðu um þessi mál í næstu viku. Ég held að þetta sé þríþætt og það skiptir máli að við horfum á það að þeir sem neyta fíkniefna hefja yfirleitt neyslu sína á áfengi. Skýr áfengisstefna er auðvitað lykilatriði þegar við ræðum um fíkniefni og forvarnir. Svo eru það forvarnir sem við vitum að skila frestun og það er rétt sem kom hér fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, við höfum náð árangri í því og þurfum að ná enn betri árangri með því að fara upp í framhaldsskólana.

Svo eru það meðferðarmálin. Við sjáum bara á tölunum sem tala sínu máli að tæplega 7% allra Íslendinga, eldri en 15 ára, hafa farið í áfengismeðferð. Þetta er ansi há tala. Við vitum líka að meðferð skilar árangri. 70–80% þeirra sem sækja áfengismeðferð hjá SÁÁ þurfa ekki að mæta aftur til meðferðar eftir 2–3 skipti. Meðferð skilar árangri en hins vegar sjáum við því miður allt of mörg dauðsföll og allt of mikil félagsleg vandamál og heilbrigðisvandamál í þessum málum. Mér finnst mikilvægt að við horfum á meðferðarmálin í samhengi því að við sjáum t.d. að hjá SÁÁ eru áætlaðar núna 842 millj. í kostnað fyrir árlegan rekstur en þau eru með 600 millj. á fjárlögum og óvíst hvernig á að dekka það. Ég held að við þurfum að horfa á meðferðarmálin í samhengi við forvarnamálin í þessum efnum.

Í umræðunni hér í næstu viku náum við vonandi að ræða þessi mál því að þau eru víðfeðm og við ættum að ræða það hér enn oftar.