135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:09]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vel við hæfi að ræða forvarnamál í dag á forvarnadeginum. Forvarnir geta verið mikilvægar. Hv. málshefjandi kaus að ræða um baráttuna gegn vímuefnavandanum og það er mjög mikilvægt að á þeim vanda sé tekið heildstætt því að hann heyrir undir fleiri en eitt ráðuneyti. Við munum ræða það málefni mun nánar í næstu viku.

Mig langar til að minna á aðrar forvarnir, þá um leið þingmál sem var þverpólitískt mál sem hv. heilbrigðis- og trygginganefnd lagði fram á síðasta kjörtímabili um að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Hún lagði fram aðgerðir í þeim efnum. Það þingmál var samþykkt á miðju síðasta kjörtímabili og á síðustu dögum þingsins var dreift hér skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra um störf faghóps sem hóf vinnu í kjölfarið til að efla lýðheilsu á Íslandi. Í henni voru lagðar fram tillögur um léttara líf, tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

Þessi skýrsla var aldrei rædd og af því að við erum að ræða störf þingsins langar mig að leggja til að hér verði umræða um forvarnir og þá þessa mikilvægu og stóru skýrslu þar sem ýmislegt er lagt til til þess að bæta heilbrigði Íslendinga. Það er ekki minna forvarnamál en hvað annað og mjög mikilvægt. Ég vil vísa því til þingsins að þessi skýrsla verði hér til umfjöllunar á næstunni og þar verði tekið á þessum forvarnamálum, en (Forseti hringir.) fíkniefnavandann ræðum við nánar í næstu viku.