135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:13]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir að taka þetta mál hér upp í tilefni forvarnadags. Fræðsla er besta vörnin og engum blandast hugur um mikilvægi virkrar forvarna- og fjölskyldustefnu í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigðu líferni barna og ungmenna, ekki síst í ljósi þeirrar margvíslegu hættu sem steðjar að ungu fólki.

Það er ljóst að fjölmargir þurfa að koma að í þessu ágæta landi okkar til að móta hér fjölskylduvænna samfélag. Þar þurfa ríki, sveitarfélög, atvinnulífið og verkalýðsfélögin að taka höndum saman og breyta ýmsu til þess að svo megi verða. Það þarf að skoða sveigjanlegri vinnutíma foreldra til þess að þeir geti betur sinnt þeirri ábyrgð sem því fylgir að vera foreldri, það þarf t.d. að samræma vetrarfrí foreldra og barna sem snýr að skólum. Það er hægt að breyta mörgu til þess að hafa áhrif á velferð fjölskyldna, stuðla að minna álagi þeirra og hafa forvarnagildi og efla lífsgæðin en til þess að svo megi verða þurfa þessi fjögur öfl að koma saman, ríki, sveitarfélög, atvinnulífið og verkalýðsfélögin.

„Taktu þátt, hvert ár skiptir máli“ var yfirskrift forvarnadagsins á síðasta ári. Það segir allt sem segja þarf og er fyrst og síðast beint til okkar foreldra og ábyrgðar okkar. Taktu þátt í leik og starfi barna þinna, þekktu vini barna þinna og fjölskyldur, það skiptir máli. Besta forvörnin er fræðsla og hún byrjar heima hjá okkur í samræðum við börnin okkar. Forvarnir og lifandi umræða á meðal barna og ungmenna er þýðingarmikil, ekki síst í ljósi þess að innlendar rannsóknir hafa sýnt að sá tími sem ungmenni verja með foreldrum sínum daglega ræður úrslitum þegar kemur að mótstöðu hinna yngri gagnvart freistingum vímuefnanna.

Forvarnadagurinn er glöggt vitni um vilja fjölmargra ólíkra aðila til að veita þessu mikilvæga máli brautargengi. Tökum þátt, hvert ár skiptir máli, og börnin okkar (Forseti hringir.) eiga það skilið.