135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst örfá orð um formalisma. Nú ræðum við störf þingsins og eins og fram hefur komið á hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir pantaða umræðu utan dagskrár sem hæstv. forsætisráðherra hefur samþykkt að ræða við hana í næstu viku, (Gripið fram í.) og er það vel.

Við þingmenn höfum gert með okkur heiðursmannasamkomulag um að stela ekki umræðum hvert frá öðru. Við höfum einnig gert með okkur slíkt samkomulag um að stunda ekki kapphlaup um þessa daga í almanakinu. Það er því kannski ekki nógu drengilegt af hv. þm. Bjarna Harðarsyni að fara af stað með þessa umræðu núna. Ég hvet til þess að hæstv. forseti vinni aðeins meira í því með okkur þingmönnum að halda reglu á þessum málum svo að þau heiðursmannasamkomulög sem við gerum okkar á milli haldi.

Forvarnir eru mjög mikilvægt málefni sem þarf að ræða af dýpt. Eitt af því sem hefur kannski ekki verið nefnt í þeim ræðum sem haldnar hafa verið eru orsakirnar. Reyndar kom hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir inn á að það er kannski inni á heimilunum og þegar við tökum á móti nýjum einstaklingi inn í samfélagið sem við þurfum að vera hvað mest á varðbergi. Þá skiptir líka máli að við áttum okkur á því að það tekur heila þjóð að ala upp barn. Það skiptir máli að við sýnum samábyrgð þegar nýtt barn fæðist í heiminum, að frá fyrsta degi viti það barn og þeir sem að því standa að samfélagið er tilbúið að styðja uppeldi þess. Það skiptir verulegu máli að við förum ofan í þessa rót. Þetta er til marks um að málaflokkurinn heyrir undir alla ráðherra, undir alla þingmenn, undir alla þá sem vilja efla samábyrgð í samfélaginu.