135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:35]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég verð enn og aftur að gera athugasemdir við ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra. Mér þykir það sárt eftir jafnágæta umræðu.

Auðvitað liggur fyrir að áfengi hefur farið inn í ný og ný byggðarlög, inn í sérverslanir, inn á bensínstöðvar þess vegna, en það er algjörlega afmarkað á þeim stöðum og selt eins og út úr vínbúð. Það er ekki inni í matvöruverslunum, það er ekki almennur aðgangur að því þó að það sé í því húsi. Það er í húsi Áfengisverslunar ríkisins. Afgreiðslutími er ákveðinn þannig að þetta hefur gerst. Þess vegna var það úúrsnúningur af hálfu hæstv. ráðherra að leggjast svona lágt í lok umræðunnar. Hann viðurkenndi þó að hann og hans flokkur hefðu setið í síðustu ríkisstjórn. Hann þarf auðvitað ekki að skammast sín fyrir það því að það var góð ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Ég ítreka bara að ég harma þau ummæli sem hann hefur haft hér í garð okkar framsóknarmanna og lýsi því yfir að það er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að áfengi skuli ekki selt í almennum matvöruverslunum. Ég vona sannarlega að niðurstaða þingsins á þessu þingi verði sú að það muni ekki opna á frelsið í þessum efnum og fara með áfengið inn í stórmarkaði þessa lands. Þá er nýr voði á ferðum.

Ég ætla ekki að skamma hæstv. heilbrigðisráðherra í dag fyrir skoðanir hans í því, hann getur í sjálfu sér haft sínar skoðanir en hann skal samt sem áður hvað þetta varðar og annað sem hann hefur sagt hér gá að sér.