135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:37]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég átta mig á því að hæstv. forseti er í nokkrum vanda með þennan lið, fundarstjórn forseta. Það er rétt sem hér kom fram hjá hæstv. forseta, við erum að ræða milli þingflokksformanna og forseta um hvernig við getum haft fyrirkomulagið á umræðum í þinginu til framtíðar. Það er áhugi á að skapa einhvers konar vettvang dagsins sem manni sýnist að þessar umræður hafi þróast út í hin síðari missiri. Ég verð þó að blanda mér í málin, virðulegur forseti, af því að mér fannst satt best að segja mjög ómaklegt af hæstv. heilbrigðisráðherra að leyfa sér í lok umræðunnar að ráðast að bæði Framsóknarflokknum og Vinstri grænum og saka þessa flokka um að vilja koma áfengi í búðirnar þegar hér er verið að ræða um forvarnamál í tilefni forvarnadagsins. Og hæstv. ráðherra er yfirmaður forvarna á Íslandi, hann er það. Það er ekki hægt að líða þessar árásir með nokkrum hætti. Það er ekki eins og hæstv. ráðherra sagði og það veit hann.

Á sama tíma er hæstv. heilbrigðisráðherra sem er yfirmaður forvarna á Íslandi að vinna að því að koma áfengi í verslanirnar. Hér er búið að snúa öllu algjörlega á haus, virðulegur forseti, og það er ekki hægt að sitja undir þessu. Ég hlýt að mótmæla því líka að þessi framkoma sé sýnd í lok umræðu þegar viðkomandi flokkar hafa ekki möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta nær ekki nokkurri átt og ég vil bara koma hér upp til að segja að ég harma þessa atburðarás, að yfirmaður forvarna á Íslandi skuli á sjálfan forvarnadaginn, ráðherra sem vinnur að því að koma áfengi í búðirnar á Íslandi, ráðast á aðra flokka og saka þá um það sama. Þetta nær ekki nokkurri átt, virðulegur forseti.