135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl.

81. mál
[12:51]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör í þessu efni. Það er mikilvægt að hér sé leitt í ljós að Ísland hefur með engum hætti komið að neinum ákvörðunum sem heimila ólögmætt fangaflug. Bandarísk stjórnvöld hafa kosið að skerast úr leik í samfélagi vestrænna þjóða og heimila meðferð á fólki sem ekki samrýmist grundvallarreglum vestrænna lýðræðisríkja. Það ber að harma.

Atlantshafsbandalagið hefur ekki staðið að slíkum ákvörðunum. Íslensk stjórnvöld bera ekki ábyrgð á slíkum ákvörðunum og íslensk stjórnvöld hafa ekkert gert til að heimila slíka framgöngu. Þvert á móti er ánægjuefni að heyra frá ráðherra þann skýra ásetning að standa við þá alþjóðasamninga sem við erum bundin af sem eiga að tryggja að við þolum ekki að hægt sé að fara um íslenska lofthelgi með fólk til að láta það sæta pyntingum eða ómannúðlegri meðferð annars staðar.