135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl.

81. mál
[12:52]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek líka undir að ég tel að hæstv. utanríkisráðherra hafi komið með nokkuð skýr svör. Það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ekki komið að neinum heimildum sem heimila fangaflug. Það er líka verið að skoða það að auka hér eftirlit með flugvélum almennt. Í því sambandi nefni ég sérstaklega einkaþotuflug á Reykjavíkurflugvelli. Við þurfum að vera mjög vakandi yfir öllu flugi en það er ekkert, miðað við upplýsingar sem við höfum í höndunum núna, sem bendir til þess að eitthvað hafi misfarist hjá okkur Íslendingum.

Ég vil líka nota tækifærið í þessari stuttu athugasemd til að draga fram að mér þótti mjög ánægjuleg nýbreytni þegar hæstv. utanríkisráðherra beitti sér fyrir því að utanríkismálanefnd fékk sérstaka heimild til að skoða fundargerðir NATO og sérstaklega frá þeim fundi sem hér er til umræðu, (Forseti hringir.) 4. október 2001. Eins og ég skynja þetta mál er hér ekkert á ferðinni sem við eigum að hafa (Forseti hringir.) mjög miklar áhyggjur af.