135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl.

81. mál
[12:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau eru greinargóð svo langt sem þau ná en ég get því miður ekki verið sammála því mati að öll kurl séu komin til grafar hvað varðar tengsl NATO-fundarins 4. október 2001 og þessara aðgerða CIA. Þó að ég hafi séð fundargerðirnar og geti staðfest að þar er ekki með neinum beinum hætti fjallað um og þaðan af síður heimilaðar aðgerðirnar sem slíkar — enda hefur enginn haldið því fram. Í skýrslu Dicks Martys og félaga er hins vegar rætt um tengslin og hvernig CIA hafi túlkað þær aðgerðir sem þar var skrifað upp á í svokallaðri baráttu gegn hryðjuverkum, þar á meðal og ekki síst annars vegar trúnaðarreglur NATO í skjóli þjóðaröryggis og hins vegar yfirflugs- og lendingaheimildir. Þingnefndir eru að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn í nálægum löndum, t.d. í Þýskalandi, og það verður fróðlegt að sjá hvað þar kemur upp úr pokunum.

Varðandi einn afmarkaðan þátt þessa máls sem snýr að því hvort Ísland hafi með beinum hætti komið við sögu finnast mér menn býsna yfirlýsingaglaðir að telja að nú sé nokkuð ljóst að svo hafi ekki verið. Ég hef miklar efasemdir um að allt þetta gríðarlega flug hefði farið hér um og lent hér, þar á meðal í mörgum tilvikum beint frá Rúmeníu þar sem annað leynifangelsið var sannarlega staðsett, í sumum tilvikum á leiðinni vestur um haf til Gvantanamó-fangelsisins illræmda á Kúbu, ef það þjónaði engum tilgangi, ef það hefðu allt verið tómar vélar til að villa um þó að vissulega sé vitað að CIA hefur verið mikið í því að senda vélar fram og til baka, breyta flugleiðum o.s.frv. til að villa um.

Ég hef fengið ábendingu um eitt sem við gætum gert til að kanna þessi mál betur hér heima, og ég beini því til utanríkisráðherra að kanna þann mat sem vélarnar fengu um borð þegar þær lentu hér. Ég hef frá aðilum sem eru gjörkunnugir málinu að stundum megi ráða að um borð í vélunum hafi verið mannskapur þegar beðið var um mat og það fylgdi sérstaklega sögunni að hnífapör (Forseti hringir.) mættu ekki fylgja með.