135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl.

81. mál
[12:55]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu kom nokkuð við sögu í skýrslu minni til Alþingis nýverið þar sem ég ræddi um utanríkismál og ég gat þess sérstaklega hvernig þetta mál sneri við okkur. Ekkert bendir til þess, og ég ítreka það, að NATO hafi með nokkrum hætti veitt samþykki eða heimild fyrir því að slíkt fangaflug væri stundað. Það getur verið spurning um það hvernig CIA hafi túlkað þessa samþykkt NATO-fundarins en um það getum við bara ekkert sagt. Það gerir íslensk stjórnvöld ekki ábyrg fyrir málinu. Það gerir NATO ekki ábyrgt fyrir málinu. Ég held að við verðum að hætta að berja höfðinu við steininn hvað þessa þætti varðar. Við höfum gert það sem í okkar valdi stendur til að skoða þetta mál. Íslensk stjórnvöld bera ekki ábyrgð á meintu fangaflugi eða því sem þrifist hefur í skjóli þess. Við munum fylgjast betur með þessu í framtíðinni og reyna að sjá til þess að við vitum hvaða fólk eða hvaða birgðir eru um borð í þessum einkavélum sem hingað koma til lendingar. Það er alveg sjálfsagt, almennt öryggisatriði að mínu viti að við höfum skrár yfir það eins og í farþegafluginu.

Ég held að það þjóni litlum tilgangi að kanna kostinn (Gripið fram í: Jú.) því að það getur vel verið að fólk hafi verið um borð þó að það hafi ekki verið fangar. Allir þurfa að borða, hvort sem þeir eru fangar eða ekki, þannig að ég held að það muni ekki gefa okkur neinar sérstakar upplýsingar.