135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

lán Íbúðalánasjóðs.

212. mál
[12:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegur forseti. Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar var að grípa til aðgerða sem áttu að stuðla að því að draga úr þenslunni í efnahagslífinu. Meðal þeirra aðgerða var að lækka lánshlutfall úr Íbúðalánasjóði úr 90% í 80%. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið úr Íbúðalánasjóði eru 90%-lánin að mestu leyti á landsbyggðinni en að mjög litlu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við tölurnar sem ég hef undir höndum voru aðeins um 3% af lánum sem veitt voru á fyrri hluta ársins 2006 90%, þ.e. hámarkslán, á höfuðborgarsvæðinu en 36–39% lánanna á landsbyggðinni. Lánshlutfallið var lækkað í 80% um mitt síðasta ár af sömu ástæðum og núverandi ríkisstjórn ákvað nú, og síðan hækkað aftur mjög snemma á þessu ári. Á tímabilinu mars til júní á þessu ári náðu 6% nýrra lána á höfuðborgarsvæðinu hámarksveðsetningu en 37% lána á landsbyggðinni. Það er alveg augljóst mál, virðulegi forseti, að lækkun lánshlutfallsins bitnar fyrst og fremst á lántakendum á landsbyggðinni.

Félagsmálaráðherra kaus að hreyfa hvorki við hámarksfjárhæð lánsins né takmörkun hámarksláns við brunabótamat sem eru þau atriði sem fyrst og fremst takmarka lánveitingar inn á höfuðborgarsvæðið. Áhrifin af þessari breytingu eru hverfandi á höfuðborgarsvæðinu þar sem þenslan er, en áhrifin eru mikil á landsbyggðinni þar sem engin þensla er, virðulegur forseti. Ég hlýt að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, núna þegar komin er nokkur reynsla á þessar ákvarðanir hennar og hún hlýtur að hafa áttað sig á því hvernig þetta liggur, hvenær ráðherrann hyggist hækka lánshlutfall almennra lána Íbúðalánasjóðs aftur upp í 90%.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að á sumum svæðum landsins er neikvæður hagvöxtur en hér er allt á fleygiferð og vandræði með uppganginn á höfuðborgarsvæðinu hvort ekki sé þá eðlilegt að reyna að beina fólki til búsetu utan höfuðborgarsvæðisins og stuðla að því að það kaupi sér eignir og setjist að utan þess, t.d. á þeim landsvæðum þar sem hagvöxtur er neikvæður. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra telji koma til greina að hækka lánshlutfallið í þeim sveitarfélögum.