135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

raforkuverð.

125. mál
[13:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmönnum að ég vildi gjarnan að iðnaðarráðherra hverju sinni væri í betri færum til að gefa nánari og gleggri upplýsingar um orkuverð til stóriðjunnar. En það er einfaldlega þannig að iðnaðarráðherra getur hvorki skipað Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur né stjórn Landsvirkjunar til að gefa upplýsingar af þessu tagi.

Ég er sammála því og hef reyndar sagt að ég telji að þessar stjórnir eigi að veita eins nánar upplýsingar um þetta og hægt er frá grundvelli samkeppnissjónarmiða. Ég virði það sjónarmið að ekki sé hægt að fara alla leið. Það er kannski hægt að fikra sig nálægt niðurstöðunni eins og ég hef stundum hlustað á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon gera í ræðum á grundvelli útreikninga sem eru byggðar á ákveðnum upplýsingum sem hafa komið fram í ársreikningum þessara stofnana.

Hv. þingmenn viðra þá skoðun sína að æskilegt hefði verið að ríkisstjórnin hefði í mótvægisaðgerðum sínum beitt sér fyrir því að lækka raforkuverðið til fiskvinnslu í landinu. Það eru auðvitað sjónarmið. Það er hins vegar þannig að menn verða líka að segja hvernig eigi að gera það. Eru hv. þingmenn að fara fram á að ríkisstjórnin niðurgreiði orkuverð til fiskvinnslunnar sérstaklega? Ef það er svo þá verða þeir að segja frá því. Ég hef ekki skilið hv. þingmenn þannig að þeir óskuðu eftir því. En ríkisstjórnin getur ekki skipað fyrirtækjum, t.d. í eigu ýmissa sveitarfélaga, að gera það.

Ég upplýsi síðan aðeins að miðað við árið 1999 virðist nú, ef maður tekur tillit til verðlagsbreytinga, sem raforkuverð hafi snarlækkað til fiskvinnslunnar. Því þá er það að meðaltali 3,89 kr. Nánast það sama í dag. Hverjar ætli verðlagsbreytingarnar hafi verið? Ríflega 40% síðan þá.