135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

reglur Evrópusambandsins á sviði orkumála.

201. mál
[13:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Evrópusambandið hefur staðið í miklum æfingum hvað varðar skipulag orkumála. Ætlunin hefur verið að markaðsvæða og eftir atvikum einkavæða þá starfsemi eins og ýmislegt fleira á þeim bæ. Og endurteknar tilskipanir eða reglugerðir hafa verið gefnar út í þessu skyni sem við Íslendingar höfum illu heilli innleitt hér á landi án þess að almennilega væri nokkurn tíma farið ofan í saumana á því hvort við þyrftum að gera það.

Í umræðum um það í fyrra komu fram nýjar upplýsingar til iðnaðarnefndar um að málin hefðu alls ekki verið vaxin eins og sagt var á sínum tíma af hálfu þáverandi utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra. Í ljós kom að fjölmörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa fengið mismunandi stig undanþágna eða heimilda til að framkvæma þessi mál með sínum sérstaka hætti, þar á meðal eyjar í Miðjarðarhafinu og jafnvel landlaust ríki inni á miðju meginlandi Evrópu eins og Lúxemborg, ný aðildarríki eins og sum Eystrasaltsríkjanna og þar fram eftir götunum.

En nú er svo komið að þeir úti í Evrópu eru lagðir af stað á nýjan leik og 19. september síðastliðinn voru kynnt áform orkumálakommissars og samkeppniskommissars Evrópusambandsins um nýtt regluverk á sviði orkumála. Hér höfum við tækifæri til að fylgja málinu eftir og fylgjast með því frá byrjun.

Það hefur verið rætt hér á þessum stað, úr þessum ræðustóli, m.a. fyrir nokkrum dögum, að Alþingi komi of lítið að málum á undirbúningsstigi. Við höfum a.m.k. enga afsökun í þessu tilviki því nú liggur það fyrir og hér með er það vonandi öllum ljóst að slík vinna er nú farin af stað innan Evrópusambandsins og hún mun hafa áhrif á okkur í fyllingu tímans ef þessi nýja regluskipan verður sett. Hún virðist eiga að ganga út á, ef marka má bæði ræður orkumálastjórans og samkeppnisstjórans sem og það sem Barroso sjálfur sagði í Madríd 1. október síðastliðinn, að höggva raforkumarkaðinn enn meira niður og fara í frekari aðskilnað framleiðslu, dreifingar og sölu og höggva þar frekar á eignartengsl eða eignarbönd en núgildandi regluverk gerir.

Það mun þá hafa áhrif hér, jafnfáránlegt og það er í raun, enda engar eiginlegar samkeppnisforsendur fyrir hendi á íslenskum raforkumarkaði. Það voru allt saman brandarar frá upphafi. Fyrirtækin nánast öll í opinberri eigu og Ísland afmarkaður og einangraður orkumarkaður með engin tengsl við önnur lönd nema þá þeim óbeinu sem fólgin eru í samkeppninni um staðsetningu fyrirtækja.

Þess vegna voru og eru öll rök til þess að Ísland skipi þessum málum á þann hátt sem hagstæðast er fyrir okkur, út frá okkar aðstæðum og okkar hagsmunum, og reyni að leita eftir undanþágum frá því að þurfa að uppfylla ákvæði frá Evrópu sem alls ekkert eiga við hér.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra. Hefur ráðuneytið fylgst með þessari vinnu á vegum Evrópusambandsins? Hvaða áhrif mundu reglur í þessa veru hafa hér á landi? Og kemur til greina að Ísland sæki um undanþágu frá því að þurfa að uppfylla þær?