135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

reglur Evrópusambandsins á sviði orkumála.

201. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þetta kannski betur við annað tækifæri en ég hef alltaf áhuga á og ánægju af að ræða við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um þá mislukkuðu aðgerð að fara að reyna að markaðsvæða raforkumarkaðinn hér. Svo því sé svarað hvað hentar okkur svona illa, þá hentar það okkur ákaflega illa að þurfa að fara að skipta okkar fyrirtækjum upp. Þar myndast svokölluð öfug samlegðaráhrif með tilheyrandi tilkostnaði.

Það hentar okkur líka illa að þvinga opinber fyrirtæki í samfélagslegri eigu til að fara að reikna sér arð. Af hverju mega þau ekki láta arðinn ganga til eigenda sinna, þ.e. fólksins sem nýtur þjónustu þeirra. Þessi markaðsvæðing hentar ekki á orkumarkaði sem er skilgreindur sem almannaþjónusta eins og við höfum fram að þessu gert. En Framsókn var að burðast við að gera þetta hákapítaliskt, markaðsvætt og einkavætt líka, eins og allt annað.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Öfugt við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fundust mér þau góð. Ég var ánægður með ráðherrann og tel að hann hafi svarað þessu vel miðað við stöðu málsins. Það er ekki hægt að biðja um meira en það. Ráðuneytið hefur þegar sett sig inn í þetta og ætlar að fylgjast vel með því og eiga um það samráð við orkufyrirtækin og eftir atvikum við iðnaðarnefnd Alþingis, sem ég tel alveg einboðið. Nú skulum við ekki sofa á verðinum eins og við gerðum síðast.

Árið 1998, ef ég man ártalið rétt, stóð hér maður og varaði við því að það sem þarna væri að fara af stað í Evrópusambandinu kynni að henta Íslendingum illa. Sá maður heitir Hjörleifur Guttormsson. Það hlustaði enginn á hann. Þegar við lögðumst gegn því að Ísland innleiddi þetta, félli frá stjórnskipulegum fyrirvara, ég og nokkrir aðrir þingmenn, tók enginn undir það. En þegar menn stóðu frammi fyrir alvöru málsins, árið 2003–2004, þá allt í einu snarfjölgaði í þeim hópi sem sagði: Heyrðu, við ættum nú kannski að reyna að fá undanþágu frá þessu. En þá var það auðvitað of seint. Þá stóðu m.a. upp margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sögðu — í borgarstjórn Reykjavíkur var það rætt: Við hefðum kannski frekar átt að fá undanþágu. Nú skulum við ekki endurtaka sömu mistökin. Að síðustu fagna ég því að ráðherra skuli segja að til greina komi að sækja um undanþágu frá þessum ákvæðum ef þau henta okkur illa.