135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:56]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera störf þingsins að umræðuefni í upphafi þingfundar. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að þingmenn kveðji sér hljóðs og ræði um störf þingsins ef eitthvað liggur þeim á hjarta en ef þeir vilja að hæstv. ráðherra verði til andsvara er lágmarkskurteisi að láta þá vita fyrir fram. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar sitji allan daginn í þingsal þegar á að fara að ræða mál sem er algerlega óviðkomandi þeirra málaflokki og því er fullkomlega eðlilegt og kurteisi að láta ráðherra vita ef menn ætlast til að þeir séu hér til svara.

Það var verið að ræða þessi mál í morgun. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi átt í orðaskiptum og verið að svara fyrirspurnum frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrr í dag, á fundi sem er nýbúið að slíta. Sömuleiðis var þessi málaflokkur ræddur ítarlega í utandagskrárumræðu í gær. Ekki er hægt að ætlast til þess að hæstv. félagsmálaráðherra sitji hér og bíði eftir því að ef til vill muni einhver kveðja sér hljóðs undir þessum lið, um störf þingsins, um þennan málaflokk. Það verður þá að láta hæstv. ráðherra vita.

Nú veit ég að hæstv. ráðherra er upptekin á fundi með fjölda manns og hefði ekki tök á því einu sinn að koma hér til að eiga orðastað við hv. þingmenn um þennan málaflokk þótt hún fegin vildi. Ég vil bara ítreka það, virðulegi forseti, að það er lágmarksviðleitni og kurteisi af hv. þingmönnum að láta hlutaðeigandi ráðherra vita ef þeir ætla að fara að ræða málaflokka þeirra undir þessum lið, um störf þingsins.