135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson sagði það í fyrri ræðu sinni að það sem þyrfti að gerast núna væri að ríkisstjórnir, sveitarfélög og almannasamtök settust niður til að skoða málið. Það er nákvæmlega það sem hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, er að gera. Hún hefur kvatt saman hóp sérfræðinga til þess að reyna að finna lausn á því vandamáli sem Framsóknarflokkurinn skildi eftir sig.

Það er einfaldlega staðreynd að Framsóknarflokkurinn hefur haldið lífi í gegnum síðustu kosningar með því að gefa út innstæðulausar pólitískar ákvarðanir. Það er í fyrsta lagi þegar forusta Framsóknarflokksins fór um landið og lofaði stóriðju í hvern fjörð, lofaði að sáldra út 4–5 stóriðjuverum, og skapaði þannig ákveðnar væntingar hjá mörgum sem slógu út á þetta og að sjálfsögðu var þetta eldsneyti á bálköst þenslunnar. Það er Framsóknarflokkurinn sem á meira í þessari þenslu en nokkur annar flokkur.

Í öðru lagi var það sú dæmalaust heimskulega ákvörðun hjá Framsóknarflokknum að knýja í gegnum síðustu ríkisstjórn 90% lánin. Og það var ekki bara ákvörðunin sjálf. (Gripið fram í.) Það var líka aðferðin við að gera það. Man þingheimur eftir því hvernig það var gert? Því var lýst yfir af hálfu félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins að þetta yrði gert eftir tvö ár. Þannig var reidd upp svipa og bankarnir voru reknir af stað í samkeppnina (Gripið fram í.) Það var fyrst og fremst þessi ákvörðun og síðan aðferðafræðin sjálf, sem var jafnheimskuleg og ákvörðunin, sem leiddi til þess að þessi staða er komin upp.

Hv. þingmaður segir að ungt fólk á Íslandi sé þakklátt Framsóknarflokknum. Morgunblaðið sýndi fram á það rétt fyrir kosningar að vegna þessarar þróunar (Forseti hringir.) hafi greiðslugeta ungs fólks sem var að kaupa sína fyrstu íbúð minnkað um 35%. (Forseti hringir.) Það er þínum flokki (Forseti hringir.) að þakka, hv. þingmaður.