135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft máli sem þarfnast verðskuldaðrar athygli af hálfu Alþingis Íslendinga. Við lifum á tímum sem eru mikið öðruvísi en þeir sem við höfum lifað hingað til. Fjölgun útlendinga á Íslandi er orðin það mikil að við verðum að fara að átta okkur á að réttindi þeirra eru á fleiri en einu sviði umdeilanleg, þ.e. það er umdeilt hvernig þeim eru tryggð þau réttindi sem eðlilegt er að útlendingar eigi í samfélagi okkar. Mál það sem hv. þm. Paul Nikolov talaði fyrir áðan er mál af þeim meiði.

Mig langar að segja nokkur orð um þann þátt frumvarpsins sem varðar réttindi kvenna sem skilja við eiginmenn sína, erlendar konur sem skilja við íslenska eiginmenn á grundvelli ofbeldis, vegna þess að sá þáttur málsins kemur manni í hug þegar skoðuð er nýjasta skýrsla Kvennaathvarfsins. Í ljós kemur að fjölgun erlendra kvenna í Kvennaathvarfinu fer vaxandi. Samkvæmt töflu sem birt er á bls. 23 í síðustu ársskýrslu Kvennaathvarfsins er hlutfall erlendra kvenna sem leitar til athvarfsins nú orðið 14% af heildinni og var 7% fyrir einum fjórum árum síðan. Hér er því um verulegt vandamál að ræða og nauðsynlegt er að við áttum okkur á að við berum öll ábyrgð í þessum efnum. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja réttindi þessara kvenna og tryggja það að þær eigi sér athvarf í þessu landi, ekki í Kvennaathvarfinu heldur í samfélagi okkar.

Þegar málin sem getið er um í greinargerð frumvarpsins hafa verið flutt á fyrri þingum fylgdi þeim fylgiskjal sem hefur að geyma hvatningu frá Stígamótum, Kvennaathvarfinu, Félagsþjónustunni í Reykjavík, Rauða krossi Íslands og Alþjóðahúsinu. Hvatningarbréfið er síðast birt á þskj. 48 á 131. löggjafarþingi en í skjalinu er sagt frá skuggahliðum nútímafólksflutninga. Mig langar að fara nokkrum orðum um hvatninguna því að hún er til Alþingis Íslendinga og til okkar þingmanna á hinu háa Alþingi.

Mánudaginn 26. maí 2003 stóðu Stígamót, Kvennaathvarfið, Félagsþjónustan í Reykjavík, Rauði kross Íslands og Alþjóðahúsið að málþingi sem bar yfirskriftina „Skuggahliðar nútímafólksflutninga“. Málþingið fjallaði um erlendar konur sem eru í sambúð með íslenskum körlum og beittar eru ofbeldi. Vegna eðlis þessa málaflokks var ákveðið að hafa ráðstefnuna lokaða og fulltrúar ofangreindra stofnana og samtaka mynduðu nokkurs konar stýrihóp og tóku saman lista yfir stofnanir og aðila sem koma að málaflokknum eða láta hann sig varða og sendu út boðsbréf til þeirra. Á endanum tóku 70 manns þátt í ráðstefnunni sem átti rót sína að rekja til svokallaðs Daphne-verkefnis, verkefnis sem styrkt hafði verið af Evrópusambandinu í einhvern tíma og í því tóku þátt fjögur lönd, Noregur, Danmörk, Þýskaland og Ísland. Grunnurinn að verkefninu var að starfsmenn kvennaathvarfanna í Noregi fóru að taka eftir endurteknum komum kvenna frá sama heimilisfanginu. Þetta var kannað nánar og í ljós kom munstur hjá sumum körlum sem laut að því að þeir fluttu inn konur, misnotuðu þær og skiluðu þeim svo aftur í kvennaathvörfin, aftur og aftur. Hlutfall erlendra kvenna í kvennaathvörfum á Norðurlöndum er hátt miðað við hlutfall innflytjenda og eins og ég sagði áðan er Ísland engin undantekning í þessum efnum.

Stýrihópurinn fyrrnefndi lýsti í bréfi til okkar þingmanna áhyggjum sínum af stöðu þeirra kvenna sem lentu í þessari aðstöðu hér á Íslandi og reyndar fór ákallið til hæstv. dómsmálaráðherra á þeim tíma. Niðurstaða málsins var að hópurinn vekti sérstaka athygli á þessu og það gerði hann eins og ég hef nú lýst.

Hópurinn nefndi sérstaklega þessi tvö atriði, þ.e. í fyrsta lagi að réttarstaða erlendra kvenna sem skilja við íslenska eiginmenn sína sé óljós og henni þurfi að breyta. Í þeim tilfellum sem ofbeldi er orsök skilnaðar er alveg ljóst að konur sem ekki uppfylla dvalarleyfisskilyrði sem tiltekin eru í lögum eiga engan sjálfstæðan rétt í landinu. Við vitum að vísu að stjórnvöld hafa séð í gegnum fingur sér við þessar konur og framkvæmt vald sitt með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir en okkur finnst algerlega einhlítt að það sé bundið í lög en ekki velvilja þeirra einstaklinga sem starfa í stjórnsýslunni.

Hitt atriðið sem stýrihópurinn lagði mikla áherslu á í skilaboðum sínum til okkar varðaði öfluga upplýsingagjöf til kvenna sem eru af erlendum uppruna og hafa dvalar- og búsetuleyfi í landinu og upplýsingar og fræðslu um raunverulega réttarstöðu þeirra.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að ég tel mál þetta þeirrar athygli vert að taka þurfi það til alvarlegrar skoðunar inni í allsherjarnefnd og ég vona svo sannarlega og treysti að það verði gert. Ég óska hv. þingmanni Paul Nikolov, fyrsta innflytjandanum sem tekur sæti á Alþingi Íslendinga, til hamingju með jómfrúrræðu sína um þetta mikilvæga mál sem ég veit að er honum hjartans mál.