135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki ónýtt að vitna í postulann Tómas eins og hæstv. ráðherra gerði. Ég vil segja um afstöðu þingflokks Frjálslynda flokksins. Ég vitnaði einmitt í að afstaða okkar byggðist á því að við ættum að líta á málin út frá einstaklingnum og grundvalla afstöðuna á virðingu og umburðarlyndi.

Það er einmitt sjónarmið sem hv. þm. Jón Magnússon setti fram á bloggi sínu nýlega sem menn geta kynnt sér og í ræðu sem hann flutti á fundi hjá samtökum kvenna í Frjálslynda flokknum. Ég hygg því að mönnum blandist ekki hugur um að við erum samstíga í þessum efnum, svo það liggi alveg ljóst fyrir.

Virðulegi forseti. Já, ég held að töluverð brögð séu að því að atvinnurekendur hafi nýtt sér aðstæður til þess að lækka launin, í sumum tilfellum til þess að okra á hinu erlenda vinnuafli fyrir kostnað af húsnæði og öðru slíku. Ég veit ekki hvað skal segja um útbreiðsluna. Ég hef ekki neina mælistiku í þeim efnum. Ég vona einfaldlega að það sé ekki mjög útbreitt og að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að koma í veg fyrir það.

Við höfum ævinlega litið á málefni útlendinga sem vinnumarkaðsmál. Þess vegna höfum við haldið fram lagaákvæðum sem eru í gildi í íslenska lagasafninu sem gera íslenskum stjórnvöldum mögulegt að ná jafnvægi á vinnumarkaði með því að takmarka aðstreymi útlendinga á hverjum tíma. Slík lagaákvæði eru í lögum og gilda gagnvart öllum útlendingum öðrum en þeim sem eru í Evrópska efnahagssvæðinu. Það eru að mörgu leyti skiljanleg ákvæði en þau eru vinnumarkaðsákvæði.