135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður tók eftir því að ég vitnaði í orð postulans Tómasar og það er alveg hárrétt hjá honum og ég gerði meira en það. Í síðustu viku bað ég fyrir hv. þingmanni við gröf heilags Tómasar í Péturskirkjunni í Róm og reyndar fyrir þingheimi öllum. Ég sé að máttur bænarinnar er talsverður vegna þess að mér finnst, hvort sem það er út af bæninni eða einhverju öðru, að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins séu orðnir að betri mönnum. Hugsanlega undirstrikar það mátt rökræðunnar. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum að nálgast þetta mál út frá einstaklingunum. En, herra trúr, þá getur flokkur ekki komið og sagt að rannsaka eigi sakaferil eins einstaks hóps eins og a.m.k. einstöku þingmenn Frjálslynda flokksins gerðu fyrir kosningar. En ég er tilbúinn að gleyma því öllu. Ég segi bara eins og aðrir í postulahópnum og jafnvel æðri þeim: Komið til mín. Í húsi mínu eru mörg híbýli. Ég fagna þessum sinnaskiptum Frjálslynda flokksins. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni … (Gripið fram í: Var þetta ný þýðing?) Það eru ýmsar þýðingar á þessu. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að einstakir atvinnurekendur hafa sýnt ótrúlega ófyrirleitni við að okra á starfsmönnum sínum og bjóða þeim kjör sem ég tel að séu ekki lögleg og eru í öllu falli siðlaus. Spurning mín laut hins vegar að því sem hv. þingmaður sagði að í reynd í hefðu orðið félagsleg undirboð hér á landi sem hefðu leitt til lægri launa íslensks verkafólks. Við óttuðumst þetta, ég og hv. þingmaður og margir sem ræddu um þessi mál fyrir nokkrum árum í upphafi hinna löglausu starfsmannaleigna áður en menn komu lögum yfir þær, en ég held, eftir á að hyggja og miðað við launaþróun á Íslandi, að sá ótti hafi ekki verið á rökum reistur. Það má orða það þannig. Ég tel að viðbrögð stjórnvalda og alþýðusamtakanna hafi komið í veg fyrir að þetta gerðist. (Forseti hringir.) En um hitt er ég alveg sammála hv. þingmanni að það er illa farið með marga útlenda verkamenn á Íslandi í dag, því miður.