135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að fara yfir þetta atriði sem hæstv. ráðherra nefnir, þ.e. framvísun sakavottorðs og við skulum þá kannski taka líka heilbrigðisvottorð sem var mikið rætt í aðdraganda kosninga og miklu skrökvað upp á okkur í Frjálslynda flokknum í þeim efnum. Staðreyndin er sú að þetta tvennt er hvort tveggja í gildandi lögum og á við um alla útlendinga aðra en þá sem hingað koma frá löndum Evrópusambandsins. Menn geta velt því fyrir sér hvers vegna Alþingi komst að þeirri niðurstöðu á fyrri tíð að hafa þetta í lögum. Ég held því ekki fram að þetta eigi endilega að vera í lögum. Ég held hins vegar varðandi heilbrigðisvottorð að það sé sjálfsagt að fá alla í heilbrigðisskoðun eftir að þeir koma til landsins, en mér finnst það ekki þurfa að vera skilyrði fyrir því að fá að koma til landsins. Mér finnst eðlilegt að hver maður sem hingað kemur fari í skoðun því að ef hann hefur einhvern sjúkdóm þarf hann sem fyrst að fá að vita af því svo hægt sé að meðhöndla hann og fá lækningu á honum. Það er bara heilbrigðismál en ekki útlendingamál.

Varðandi sakavottorð þá skal ég ekki segja, ég er ekki með mjög stífar meiningar um hvort það eigi að vera í lögunum, hvorki gagnvart borgurum Evrópusambandsins né öðrum borgurum jarðarinnar eins og þó er hér á landi. Yfir 6 milljarðar manna búa utan Evrópusambandsins og þeir verða allir að framvísa sakavottorði þegar þeir koma til landsins. Ég held að leitast ætti við að finna þægilegri leiðir til að hver einstaklingur geti dregið fram sögu sína þegar um það er beðið því að það er í sjálfu sér líka eðlilegt að þeir sem ráða fólk í vinnu geti haft upplýsingar um starfsmenn sína hvort sem þeir eru Íslendingar eða útlendingar. Ég held að þetta atriði eigi ekki að meðhöndlast sem þjóðernismál heldur bara sem almennt öryggismál sem gildi gagnvart öllum.