135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[14:54]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða þingsályktunartillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mælti hér fyrir en hún, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, er flutningsmaður á tillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ég er mjög ánægð með að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram og efnislega er ég mjög sammála því sem í henni stendur. Og eins og hv. þingmaður kom að í ræðu sinni þá virðist það stundum vera þannig í jafnréttisbaráttunni, eða maður upplifir það þannig það sé stundum tekið eitt skref áfram og tvö aftur á bak.

Tölur varðandi hlutfall kvenna í sveitarstjórnum og á Alþingi sýna það svart á hvítu að um leið og einhver árangur næst, um leið og konur eru að komast upp að ákveðnu glerþaki þá er eins og eitthvað gerist í næstu kosningum og við förum þessi skref aftur á bak. Ég held að það sé eitthvað sem virkilega þarf að koma til skoðunar og kannski eigum við bara að viðurkenna það að þrátt fyrir allt er þessi málaflokkur þannig að við þurfum alltaf að vera á vaktinni. Við þurfum alltaf að vera á jafnréttisvaktinni.

Sú sem hér stendur hélt erindi ekki alls fyrir löngu á vettvangi félagasamtaka hér í borginni þar sem ég var einmitt beðin að koma og ræða um jafnréttismál. Ég get sagt það alveg eins og er að þegar ég settist niður og var að skrifa erindi mitt, þá þyrmdi yfir mig. Vegna þess að mér fannst þegar ég er að ræða þennan málaflokk þá er eins og það sé alltaf verið að segja sömu hlutina. Við erum alltaf að tala um sömu hlutina aftur og aftur. Við erum alltaf að tala um að aðgerða sé þörf. Við erum alltaf að tala um það að við þurfum að vera á vaktinni. Og satt best að segja þá verður það stundum lýjandi og þreytandi og manni finnst eins og enginn árangur hafi náðst í þessum málaflokki.

Þess vegna fagna ég mjög að hv. þingmaður skuli koma með þetta mál hér og sýna það að hún er á jafnréttisvaktinni eins og fleiri í þessu landi. Við sjáum það bara á þeim fjölda kvenna sem nú situr á Alþingi að konum hefur fækkað. Til að mynda í mínum þingflokki, þingflokki Samfylkingarinnar, er staðan í dag þannig að við erum eingöngu þrjár sem teljumst vera óbreyttar þingkonur þess flokks. Hinar þrjár eru allar ráðherrar. Ég hygg að svipað sé upp á teningnum hjá flestum öðrum þingflokkum nema ef vera skyldi Frjálslynda flokknum þar sem engin kona er í þeirra þingflokki. En ég segi þetta bara til þess að minna okkur á að þetta er mál sem alltaf þarf að vera á vaktinni út af.

Það er nú svo skemmtilegt af því ég stend hér í þessum ræðustól núna og er að ræða þetta, að þá komst í hámæli í gær þingsályktunartillaga sem ég flyt varðandi það að skoða möguleikana á að taka upp kynhlutlausara starfsheiti á ráðherra en notað er í dag. Ég hef satt best að segja varla haft tíma til að sinna þingstörfum í dag vegna þess að viðbrögðin sem ég hef fengið við þessari, að mínu áliti, litlu og sakleysislegu tillögu, eru gríðarleg og mun meiri en ég átti von á. Og sum þeirra einkennast því miður, vil ég leyfa mér að segja, af mjög mikilli karlrembu.

Ég hef fengið viðbrögð, mjög hörð viðbrögð frá mörgum körlum sem hafa m.a. gagnrýnt mig fyrir það hvort ég hafi ekkert annað við tíma minn að gera en að eyða tíma þingsins í að ræða svona mikið dellumál. Ég hef verið mjög hugsi yfir þeim viðbrögðum sem ég hef fengið varðandi þetta vegna þess að það þótti að sjálfsögðu ekkert mál þegar að karlar hösluðu sér völl í Fósturskólanum að breyta nafni þeirrar stéttar í leikskólakennara eða breyta nafni hjúkrunarkvenna í hjúkrunarfræðinga o.s.frv.

En um leið og tekið er lokið af því að orða þetta eða kalla eftir áliti færustu sérfræðinga, þá ætlar allt vitlaust að verða og allt um koll að keyra. Því það er nú bara þannig þrátt fyrir allt að kona getur aldrei verið herra né karl verið frú. Málfræðilega gengur þetta ekki upp og þess vegna tel ég fulla ástæðu til þess að skoða þetta. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á margt í ræðu sinni, m.a. launamuninn og launamálin. Launamunur kynjanna er eitt stærsta jafnréttismál samtímans og við verðum að taka á því hér á Alþingi og ég er sammála þingmanninum varðandi það.

En það er skemmtilegt að í gær þegar ég sá að þetta mál var hér á dagskrá í dag þá fékk ég sent í hólfið mitt blað, Hafnarblaðið kom út í gær í tilefni af afmæli hafnarinnar og í því er m.a. viðtal við Guðmund J. Guðmundsson heitinn. Í greininni er mynd af Guðmundi heitnum undir fyrirsögninni: Síðasta karlrembuvígið fallið. Það er ekki ýkja langt síðan að Guðmundur J. Guðmundsson heitinn sat í hafnarstjórn Reykjavíkur og mig langar aðeins, herra forseti, að vitna í, svona til marks um það að þrátt fyrir allt þá hefur ýmislegt breyst í þessum málum. Guðmundur gerir góðlátlegt grín að sjálfum sér og segir í þessari grein, með leyfi forseta:

„En hafnarstjórn hefur aldrei verið við kvenmann kennd. Í öllu þessu kvennafargani skákar svo íhaldið öðrum flokkum meira að segja kvennaframboðinu og tilkynnir að kona verði næsti formaður hafnarstjórnar Reykjavíkur. Fyrr má nú skáka en máta!“

Þetta segir Guðmundur J. í tilefni af því að Ingibjörg Rafnar var þá fyrst kvenna, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, til að taka við embætti formanns hafnarstjórnar á þessum tíma og þótti mjög merkilegt. Ég hvet alla þingmenn til þess að lesa þessa grein sem er fantaskemmtileg aflestrar og síðar í henni segir Guðmundur, með leyfi forseta:

„Kvenmaður hefur fram til þessa aldrei fengið að koma á hafnarstjórnarfund nema fagrar stúlkur sem reitt hafa fram fyrir stjórnarmenn kaffi og bakkelsi. Þá hafa hafnarstjórnarmenn sett upp virðulegan þreytusvip en þó horft á þær með aðdáunarblik í augum og hefur mér virst þeim vel líka. Svo notað sé rauðsokkumál þá er þetta hinn versti „pungrottu“-hugsanagangur sem hugsast getur.“

Það er skemmtilegt að þetta blað skuli akkúrat berast þegar við erum að ræða þetta hér í þinginu en segir sína sögu varðandi það hvað hlutirnir þrátt fyrir allt hafa breyst á ekki lengri tíma.