135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:02]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna eins og aðrir frumkvæði hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur í þessu máli. Hún hefur áður sýnt viðlíka frumkvæði þegar hún lagði fram árið 1996–1997, að mig minnir, þingsályktunartillögu um að efla hlut kvenna á Alþingi en sú tillaga var samþykkt. Í framhaldinu var skipuð þverpólitísk nefnd, eins og hv. þingmaður greindi frá, sem einhenti sér í verkefnið og skilaði mjög góðum árangri. Það sýndi sig í kosningunum 1999 þegar við slógum met í hlut kvenna á þingi.

Virðulegi forseti. Ég segi það sama nú og ég sagði þegar við ræddum hið byltingarkennda jafnréttisfrumvarp hæstv. félagsmálaráðherra: Það hryggir mig mjög að við skulum endalaust þurfa að standa í þessu ströggli. Það hryggir mig að þurfa að standa í þessu. Í barnslegri einlægni hélt ég fyrir tíu árum, rúmlega tvítug að aldri, að ég þyrfti ekki að standa í þessum sporum í dag, að þurfa endalaust að standa vakt um þessi mál. Maður trúði því einhvern veginn að þessir hlutir yrðu komnir í lag. Það sama á örugglega við um konur, og jafnréttissinnaða karla, tugi ára aftur í tímann. Þau hafa án efa vonað að við þyrftum ekki að standa í þessari umræðu aftur og aftur.

Virðulegi forseti. Hlutur kvenna á þingi og í sveitarstjórnum er að mínu mati mikið áhyggjuefni. Íslenskt samfélag stendur mjög framarlega á mörgum sviðum og því finnst mér þessi tala, að við komumst ekki upp fyrir þetta glerþak á Alþingi, sem virðist vera við 35%, til skammar fyrir íslenskt samfélag. Mér finnst það smánarblettur á yfirbragði okkar út á við sem þjóðar. Á þessu verður að gera verulega bragarbót og með þverpólitískum hætti. Mér líkar vel sú nálgun sem hér kemur fram, enda er ég meðflutningsmaður hv. þingmanns í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna annað þessu tengt. Ég held að það sé ekki einungis áhyggjuefni hve fáar konur taka þátt í stjórnmálunum. Það er líka sérstakt rannsóknarefni að konur virðast staldra skemur við í stjórnmálum en karlar. Ég held að það sé rannsóknarefni, sem við þyrftum að skoða vel. Við þurfum að fara yfir ástæðurnar, bera saman þá karla og þær konur sem eru í stjórnmálum, hversu lengi þau hafa verið í stjórnmálum og hvaða framgang konur hafa fengið miðað við karlana. Ég tel að þar sé gríðarlega mikill munur á.

Virðulegi forseti. Ég verð að nefna, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan, að fyrirmyndir skipta gríðarlega miklu máli. Við erum að verða býsna rík af fyrirmyndum ef horft er á ríkisstjórnina. Ég nefni flokkinn minn sem er með sex ráðherra og þar af eru þrjár konur og þrír karlar, sem ég tel vera gríðarlega mikilvægt skref. Ég ætla að leyfa mér að halda áfram að láta mig dreyma. Ég vona að eftir 10 ár héðan í frá komi sú staða upp að fyrir tilviljun verði meiri hluti ráðherra konur en ekki karlar, og það verði ekki vegna þess að við höfum þurft að beita handafli heldur fyrir einskæra tilviljun.

Fram að því, virðulegi forseti, verðum við að standa mjög vel vaktina. Við megum ekki líta undan á jafnréttisvaktinni. Á Alþingi lækkaði hlutfall kvenna milli kosninga 1999 og 2003. Ég vil líka nefna að fyrirmyndir skipta máli á fleiri stöðum en eingöngu í hópi ráðherra. Það skiptir líka máli hvernig hið opinbera skipar í nefndir og ráð á sínum vegum og í stjórnir fyrirtækja. Þar hef ég reynt að standa jafnréttisvaktina með því að spyrjast fyrir um þessa hluti, þ.e. hver kynjaskiptingin er í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytanna. Niðurstaðan sem ég fékk fyrir um ári var vægast sagt sorgleg. Í ljós kom að meira en helmingur ráðuneytanna var með áberandi mikið fleiri karla í nefndum sínum og voru margar nefndir hreinar karlanefndir. Landbúnaðarráðuneytið var sýnu verst með um 84 eða 86% — ég er að fara með þetta eftir minni — karla í nefndum, ráðum og stjórnum á sínum vegum.

Virðulegi forseti. Árið 2006 var staðan með þessum hætti í ráðuneyti á Íslandi. Það skiptir mjög miklu máli hvað varðar fyrirmyndir að hið opinbera standi sig í þessum efnum. Það er ekki rétt að það vanti konur til að sinna þessum störfum, konur eru mjög oft varamenn í sömu stjórnum, nefndum og ráðum. Það eru bullandi hæfar konur út um allt í samfélaginu. Ég held að hið opinbera og ráðuneytin eigi að ganga á undan með góðu fordæmi í þessum efnum, vera sönn og góð fyrirmynd fyrir fyrirtækin í landinu og fyrir einkageirann.

Ég mun halda áfram að spyrja þessara spurninga. Það tilkynnist hér með, ef einhverjir ráðherrar þurfa að fara að lagfæra hlutfallið í nefndum sínum og ráðum, að ég mun aftur bera fram þessar spurningar að ári til að taka stöðuna og sjá hver þróunin hefur verið. Ég vona svo sannarlega, og hef reyndar fulla trú á því, að við munum ekki sjá tölu eins og við sáum hjá hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra, að hátt í 90% hlutfall í nefndum og ráðum verði karlar.

Virðulegi forseti. Ég læt þetta duga í bili. Ég fagna umræðunni og vona svo sannarlega að málið eigi eftir að fara í gegn sem og einnig hið byltingarkennda jafnréttisfrumvarp hæstv. félagsmálaráðherra. Ég sé að umræðan um jafnréttismál á eftir að verða fyrirferðarmikil á þessu þingi og ég fagna því mjög.