135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:26]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða nokkuð merkilegt þingmál, baráttu fyrir því að jafna hlut karla og kvenna í sveitarstjórnum. Mér finnst að það þyrfti nú að vera á fleiri sviðum því að ég hygg þegar horft er yfir farinn veg að þess þurfi ekkert síður í íslensku atvinnulífi og þótt komið sé inn á þetta merkilega ár, 2007, þá hefur okkur raunar miðað hægar en menn bjuggust við hér í þinginu.

Þegar ég kom inn á þing fyrir 20 árum voru þar 11 konur. Þá gerði Kvennalistinn sprengingu, bæði með þrýstingi á stjórnmálaflokkana og kom sjálfur inn með eina fimm eða sex þingmenn. Það varð viss bylting þetta vor. Nú er 21 kona og 42 karlar í þinginu, sem þýðir að önnur gamla deildin, efri deild, gæti verið setin konum þannig að auðvitað hefur árangur náðst en hann er hægari en við áætluðum. (Gripið fram í.) Efri deild, sagði ég, gæti verið skipuð konum.

Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar, eins og 1. flutningsmaður, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, benti hér á, látið þessi mál sig mikið varða síðustu árin og hefur vissulega náð miklum árangri, t.d. með helming ráðherra sinna, þrjá ráðherra af sex oft og tíðum á síðustu árum, eins og Samfylkingin gerir nú.

Ég hef sjálfsagt oft verið talin karlremba og meira að segja höfð eftir mér orð (Gripið fram í: Með eldavélina?) sem eiga sér auðvitað ekki rætur í sannleikanum heldur kannski í þeirri gangandi ímynd sem ég er. Ég hugsa að enginn maður hér eða fáir búi við jafnmikið kvennaríki og ég, giftur konu og á þrjár dætur En syndir feðranna koma oft niður á börnunum, faðir minn átti 12 stráka en ég engan. Ég hef verið einn í þessum kvennasæg og styð auðvitað jafnrétti kvenna af lífi og sál. Ég held að sérhver vinnustaður sé betri vinnustaður þar sem þessi skipting er sem jöfnust.

Það er kannski svo þegar við lítum til baka að þær vinnuaðferðir sem gilt hafa í félagsmálum eru svolítið fælandi fyrir konur. Þeim fylgir óreglulegur vinnutími, þras og oft og tíðum erfitt návígi. Ég held að vinnuumhverfið bæði hér á Alþingi í pólitíkinni hafi batnað um leið og konum fjölgaði. Þegar ég byrjaði hér voru þingfundir oft heilu næturnar og fram á morgun og milli jóla og nýárs og það þótti sjálfsagt að karlar þrefuðu hér allan daginn. Konur hafa breytt þessu andrúmslofti og konur eru í rauninni skipulagðari við þau verk sem þær taka þátt í. Ég held að það þurfi enn og frekar að efla markviss vinnubrögð. Stjórnmálamenn verða að sýna sjálfum sér þá virðingu að vinnutíminn sem fer til félagsmála sé skynsamlegur, sé aðlaðandi fyrir hæfasta fólkið á Íslandi hvort sem það eru sveitarstjórnirnar, Alþingi sjálft eða atvinnulífið. Kannski þarf að hugsa meira um atvinnulífið því að ég er alveg klár á því að konur eru ekki síður ábyrgðarfullar en karlmenn. Stundum hef ég það kannski á tilfinningunni að á mörgum sviðum séu þær ábyrgari.

Ég heyrði að fyrr í umræðunni hefði verið rætt um að fyrrverandi landbúnaðarráðherra hefði verið slakur við að skipa konur í nefndir. Vissulega er það rétt. Ég bjó auðvitað við það að margar tilnefningar voru í þær nefndir sem ég skipaði. Og það er svo undarlegt, finnst mér, vegna þess að t.d. í sveitum Íslands þar sem er mjög sterk félagsleg vitund meðal kvenna, konur halda í rauninni uppi félagslífi sveitanna í gegnum kvenfélög, þær leysa öll verkefnin, en þegar kom að búnaðarþingi eða nefndarsetu fyrir landbúnaðinn þá er það vandamál, þar eru þær allt of fáar. Konur eru ekki stjórnum fyrirtækja, hvort sem það eru mjólkurbú eða sláturfélög. Ég stóð oft frammi fyrir því að konur voru alls ekki tilnefndar til félagsmálastarfa eða þar sem var verið að biðja um menn í nefndir og ráð.

En ég er klár á því hverjir hafa haldið uppi félagslífi sveitanna og þekki það af eigin raun. Þess vegna þarf auðvitað að hvetja til þess að bæta það andrúmsloft sem þarf að vera í kringum félagsmálin í landinu. Ég get því vel stutt þessa þingsályktunartillögu og hef í rauninni sagt hér að hún þurfi að vera víðtækari. Ég er ekki að halda því fram að þvinganir í lögum séu alltaf til hjálpar en við þurfum að fara í gegnum mörg atriði sem snúa að þessum mikilvægu verkefnum sem við sinnum. Þetta snýr kannski líka að fjölbreytni, að í þinginu séu bæði karlar og konur og ekkert síður ungt fólk en fullorðið. Ég hef gaman af því stundum, af því að það er æskublær yfir mörgum í þessum sal í mínum huga, að ég hitti einhvern á götu sem sagði að þingið væri orðið barnungt en það þing sem kosið var síðastliðið vor er sennilega elsta nýja þing sem ég hef setið. (Gripið fram í.) Ég hef nú ekki séð neina breytingu á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í 40 ár. (Gripið fram í: Það hefur birt yfir honum.) Það er bjart yfir honum og ég veit ekki hvernig þetta þing væri ef hann væri ekki hér meðal okkar. En það er nú útúrdúr.

Ég vil að lokum segja að það er skoðun mín að við þurfum að fara yfir þetta á mjög víðum grundvelli (Gripið fram í.) og leggja áherslu á jafnræði á milli kynjanna, því að félagsmál eru í betra formi þegar jöfn skipting er á milli karla og kvenna og atvinnulífið mun batna verulega og verða ábyrgara ef fleiri konur verða forstjórar og framkvæmdastjórar í fyrirtækjum og koma inn í stjórnir og ráð fyrirtækjanna. Mér finnst sá vængur hafa legið töluvert mikið eftir á síðustu árum og við þurfum sem stjórnmálamenn og réttlætisfólk að beina sjónum okkar að þeim vettvangi líka.