135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjáraukalaganna munum við þingmenn Frjálslynda flokksins styðja nokkrar þeirra breytingartillagna sem urðu niðurstaðan eftir umfjöllun fjárlaganefndar. Við teljum að þar sé tekið á málum sem afar nauðsynlegt hafi verið að taka á og sé í raun og veru nauðsynlegur grunnur þess að fjárlagavinnan fyrir næsta ár geti orðið betri og markvissari en verið hefði ef ekki hefði verið tekið á málum, m.a. með sumum þeim breytingartillögum sem koma fram í áliti og tillögum meiri hlutans. Þar af leiðandi munum við styðja nokkrar af þeim tillögum sem koma frá meiri hluta fjárlaganefndar og mun það skýrast í atkvæðagreiðslunni, hæstv. forseti.

Að öðru leyti berum við ekki ábyrgð á gerð fjáraukalagafrumvarpsins eins og það liggur fyrir.