135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:52]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Aldraðir og öryrkjar, halda menn að það sé hægt að segja við það fólk að við séum með einhver heimsmet í góðum kjörum fyrir aldraða og öryrkja? Hvað er í gangi? Eru menn orðnir gjörsamlega blindir á Alþingi og halda að þeir geti talað svona þegar fólk er með 110 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði? Þetta er dónaskapur gagnvart öldruðum og öryrkjum.

Ungt fólk sem er að reyna að koma yfir sig húsnæði er sligað af vaxtaokri. Sjávarbyggðirnar eru að leggja upp laupana. Fólksfækkun er á öllum stöðum á landsbyggðinni út af óréttlátasta fiskveiðistjórnarkerfi sem fundið hefur verið upp í heiminum. Framsóknarmenn, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa bakkað það upp, eru enn að því og vilja halda því við lýði. Það er ekki að sjá nein teikn á lofti um að þar eigi að breyta neinu. Sveitarfélögin eru skuldsett sem aldrei fyrr. Þó að ríkissjóður sé rekinn með hagnaði þarf að leiðrétta skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Það er með ólíkindum að stjórnmálamenn skuli hæla sér af þessari skýrslu og þessum afrekum þegar þetta blasir við. Og aldrei hefur fleira fólk þurft á aðstoð að halda hjá hjálparstofnunum. Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálpræðisherinn, Rauði krossinn og Hjálparstofnun kirkjunnar eru með fullt hús af fólki í þessu mikla góðæri. Ég held að þingheimur eigi að líta aðeins í kringum sig áður en hann hreykir sér eins og montinn hani á priki.