135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meðaltalskúrfan hvað varðar lífskjör á Íslandi er ljómandi góð. Það vitum við. Ástæðan fyrir því að Ísland lendir á toppnum á þessari úttekt Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í morgun er hins vegar kannski sú að því ríka fólki sem hefur auðgast verulega á Íslandi hefur fjölgað. Meðaltalskúrfan fer því upp. (Gripið fram í: Er það ekki gott?)

Mér finnst rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að gera eins og hún gerði hér, segja að við yrðum að gá að því að hreykja okkur ekki um of. Þessi skýrsla sýnir ekki allt sem þarf að sýna. Eins og hefur verið bent á í þessari umræðu höfum við verið ofarlega og í efstu sætunum árum saman, í u.þ.b. þau 20 ár sem þessi skýrsla hefur verið tekin saman.

Ég vil gera hér að umræðuefni tvennt sem kemur líka í ljós í þessari skýrslu. Það er mjög alvarlegt. Þar erum við í heiðurssætum, þ.e. háum sætum sem enginn heiður er að sitja í. Það varðar loftslagsmálin. Við sjáum að Bandaríkjamenn og Kanadamenn eru með dýpsta fótsporið í lífríki jarðarinnar út frá athöfnum mannsins. Þeir losa gróðurhúsalofttegundir sem nemur 20 tonnum á íbúa og núna erum við Íslendingar, á árinu 2007, komin fast að þessum tveimur, við erum komin upp fyrir Ástralíu í losun. Við erum farin að losa 17 tonn á mann af gróðurhúsalofttegundum. Kanada og Bandaríkin eru þau einu sem eru ofar en við. Mér þykir enginn heiður að vera í þessu sæti.

Það er annað toppsæti sem mér finnst enginn heiður að verma. Hvergi á byggðu bóli er notað eins mikið rafmagn á hvern íbúa og hér. (Gripið fram í.) Það leiðir það í ljós að við þurfum að gera átak í raforkumálunum og tryggja að við (Forseti hringir.) förum í orkusparnaðarátak. Ég sé ekki að ríkisstjórnin ætli að fara í neitt orkusparnaðarátak, a.m.k. sér þess ekki stað í fjárlögum þessa árs. (Forseti hringir.)