135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[13:57]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir örvandi vímuefnafaraldri. Á síðustu 10 árum höfum við séð nær tvöföldun á fjölda þeirra sem leita sér aðstoðar vegna örvandi vímuefna. Höfum við tapað stríðinu gegn mesta böli íslensku þjóðarinnar, áfengis- og fíkniefnavandanum? Kannski ekki, en við erum í það minnsta í vörn, jafnvel þótt við eigum ýmsa leiki í stöðunni.

Harðari neyslu fylgir ekki bara stóraukin hætta á alvarlegum geð- og heilbrigðisvandamálum, félagslegri eymd, brenglun, dauðsföllum, sjálfsvígum og eyðilögðum fjölskyldum og ástvinum. Þeim fylgir líka grófara ofbeldi og glæpir, vændi og mansal, skipulögð glæpastarfsemi sem nú þegar hefur fest rætur hérlendis. Ungum afbrotamönnum fer fjölgandi.

Síðustu daga höfum við heyrt heilmikið um forvarnir. Við höfum m.a. heyrt að foreldrar eigi að eyða meiri tíma með börnum sínum og að tómstundir hafi forvarnagildi. Gott og vel, en ef við erum heiðarleg við okkur sjálf, hversu tilbúin erum við þá í raun til að ráðast í þær samfélagsbreytingar sem til þarf, styttri og sveigjanlegri vinnutíma, hærri laun, minni neyslu, minna stress, minni hraða, minni hlaup, aukinn jöfnuð — er það á dagskrá í samfélaginu í dag?

Hversu auðvelt eiga sumir með að minnka við sig vinnu? Hvað segjum við við foreldra sem hafa sinnt börnum sínum af alúð og natni en missa þau samt út í óreglu og böl? Hvað segjum við við börn alkóhólista og börn fíkla, einmitt þau börn sem eru í hvað stærstum áhættuhópi, um gæðatíma fjölskyldna og samverustundir?

Virðulegi forseti. Ég tala af heilum hug fyrir almennu gildi tómstundastarfs, íþróttaiðkunar og listgreina, uppbyggjandi áhugamála. En hvað segjum við við þau ungmenni sem fá nýtt og öflugra áhugamál þegar mest á reynir, fíknina, og sökkva sér í hana? Það ætlar sér enginn að verða ósjálfbjarga eiturlyfjafíkill, hvorki sá sem æfir fótbolta né sá sem teflir skák, né heldur hinn sem gerir hvorugt.

Öll skólastig eru mikilvægur vettvangur forvarna — en hvað er góður skóli?

Í mínum huga er góður skóli staður þar sem ungmennum líður vel, staður sem á að hafa það meginhlutverk að efla með þeim sterka sjálfsmynd og sjálfstraust, hlúa að hverjum og einum til eigin framkvæmda í eigin lífi. Það á um leið að vera staður þar sem öflug teymi ólíkra fagaðila leita markvisst að áhættuhópum og halda í höndina á þeim frá upphafi. Eru íslenskir skólar góðir skólar að þessu leyti — eða er álagið á starfsfólk allt of mikið nú þegar og stoðkerfið of veikt?

Og hvernig náum við til þeirra sem erfiðast er að ná til? Brottfall í íslenskum framhaldsskólum er of mikið og það er einmitt þá sem aldurinn er hvað viðkvæmastur.

Það er lífsspursmál í þessum efnum, virðulegur forseti, að beina auknum kröftum að áhættuhópum. Almennar forvarnaprédikanir, lífsgæðakannanir eða auglýsingar í fjölmiðlum duga skammt á þau ungmenni sem eru í mestri hættu. Þessir einstaklingar þurfa aðstoð augliti til auglitis innan menntakerfisins, félagskerfisins, heilsugæslunnar, meðferðarstofnana, dómskerfisins. Það þarf eldra fólkið líka. Í þessu samhengi er rétt að benda á að alþjóðlegar rannsóknir sýna að langáhrifaríkustu forvarnir gegn áfengisneyslu unglinga eru hátt áfengisgjald, hár áfengiskaupaaldur, stíft bann við áfengisauglýsingum og takmarkað aðgengi. Erum við á réttri leið?

Það starf sem faglegar meðferðarstofnanir vinna verður seint fullþakkað. Við búum að stórum og metnaðarfullum hópi fagfólks með sérþekkingu sem vinnur markvisst að forvörnum, úrræðum og rannsóknum. Aðgengi að áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi er með því besta sem gerist og um 7% Íslendinga, eldri en 15 ára, hafa notið góðs af meðferð hjá SÁÁ. Á tímum stóraukinnar áfengisneyslu og notkunar örvandi vímuefna skýtur óneitanlega skökku við ef fjárveitingar til aðgerða gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu dragast saman. Slíkt gengur einfaldlega ekki upp. Það þarf að greina með faglegum hætti og rannsóknum hvar og hvernig skilvirkasta, besta og faglegasta starfið er unnið og beina stórauknu fjármagni inn á þær brautir en varast handahófskenndar og eftirlitslausar úthlutanir.

Hvernig búum við að lögreglu og tollyfirvöldum? Ætlum við, virðulegur forseti, að tryggja betri tæki og mannafla til að sporna við innflutningi fíkniefna og skipulagðri glæpastarfsemi? Ætlum við að viðurkenna að fangelsisvist er engin lausn fyrir fársjúka fíkla eða ungt fólk?

Úrlausnarefnin, virðulegi forseti, snerta öll ráðuneyti og alla flokka. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra, hafið langt yfir flokkapólitík og þrætur hversdagsins.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra:

Hvaða stefnumörkun og markmið er varðar úrlausnir á vímuefnavandanum liggja fyrir hjá mismunandi ráðuneytum? (Forseti hringir.) Hvar mun þungi samræmdra aðgerða liggja og hvenær hyggst ríkisstjórnin hrinda þeim aðgerðum í framkvæmd?