135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:02]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu alvarlega málefni. Fíkniefni eru einn ömurlegasti vágestur nútímasamfélags og það er skylda okkar sem einstaklinga, foreldra og stjórnmálamanna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að börnin okkar og unga fólkið almennt verði þeim ekki að bráð og leiðist ekki út í ógöngur í umgengni við önnur vímuefni.

Hér á landi hefur margt áunnist í þessum efnum og ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera myndarlegt átak í forvörnum sem beinist sérstaklega að framhaldsskólanemum auk þess sem forvarnir eru snar þáttur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og unglinga. Að auki er í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár gert ráð fyrir 100 millj. kr. framlagi til þriggja ráðuneyta, heilbrigðis-, félags- og dómsmálaráðuneyta, til að standa fyrir sameiginlegu átaki til að bregðast við aukinni vímuefnavá með öflugri fræðslu og forvörnum, stuðningi við fjölskyldur í vanda, fjölbreyttum meðferðarúrræðum og hertri löggæslu.

Hið alþjóðlega umhverfi kallar á breytta nálgun í vímuefnavörnum. Ljóst er að samfara heilsueflingu og forvörnum þarf að herða, bæta og beita nýjum áherslum í löggæslu. Forvarnir þurfa að miða að því að ná til áhættuhópa, virkja grasrótina og tvinna saman rannsóknir, stefnumótun og framkvæmd.

Löggæsluyfirvöld hafa gripið til ráðstafana til að bregðast við aukinni hörku í heimi fíkniefna og meðal fíkniefnasala. Sérsveit lögreglunnar hefur verið efld, m.a. til að styrkja lögregluna í að takast á við fíkla sem stundum eru ofbeldisfullir og beita jafnvel vopnum. Hið sama má segja um greiningardeild lögreglunnar. Hún gegnir m.a. því hlutverki að kortleggja fíkniefnaheiminn og auðvelda götueftirlitinu að rata um krákustíga hans með það að markmiði m.a. að forða fólki frá því að lenda í klóm fíkniefnasala.

Við fáum reglulega fréttir af því að lögregla og tollgæsla finni og geri upptæk fíkniefni sem reynt er að smygla til landsins. Oftar en ekki er það árangur af aukinni upplýsingagjöf á milli ýmissa aðila, gjarnan landa á milli. Aukin áhersla hefur verið lögð á slíka samvinnu undanfarin ár og er ástæða til að gera það áfram eins og dæmin sanna.

Góður árangur hefur náðst í vímuefnavörnum í grunnskólum landsins á undanförnum árum en á 10. áratugnum leiddu rannsóknir í ljós stöðuga og verulega aukningu í neyslu vímuefna meðal grunnskólanema. Foreldrum voru send skýr skilaboð um að auka samveru með börnum sínum, leyfa ekki útivist eftir lögboðinn útivistartíma og leyfa ekki eftirlitslaus samkvæmi. Áhersla var lögð á mikilvægi skipulagðrar tómstundaiðkunar. Aukin meðvitund foreldra um þessi atriði hefur án efa átt þátt í þeim árangri sem náðist. Mikill mælanlegur árangur hefur náðst frá árinu 1997 varðandi til að mynda áfengisneyslu grunnskólabarna, reykingar þeirra og sömuleiðis neyslu hass. Tölurnar sýna ágætan árangur hvað þetta varðar á þessu tímabili meðal þessa hóps ungmenna.

Nú þarf að huga að næstu aldurshópum fyrir ofan. Rannsóknir hafa leitt í ljós að meðal framhaldsskólanema er neysla vímuefna mun meiri og brýn þörf að bregðast við. Heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra hafa kynnt verkefni sem beinist að heilsueflingu framhaldsskólanema. Markmiðið er að stuðla að bættri heilsu og líðan og þar með draga úr brottfalli og bæta námsárangur.

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og unglinga sem unnið er að á forræði félagsmálaráðherra er lögð áhersla á almennar forvarnaaðgerðir og lagt til að farin verði leið heilsueflingar, stuðlað að reyklausu umhverfi barna og unglinga, forvörnum gegn reykingum áfram sinnt vel, ungmennum veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu, ekki síður en ólöglegra vímuefna í samræmi við lögbundna fræðslu um tóbaksvarnir í grunnskólum. Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu um andlega og félagslega líðan. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, á hollar tómstundir, uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar við leik og störf. Allt rímar þetta við heilsustefnu heilbrigðisráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Ég hef hér drepið á nokkur atriði í því sem ríkisstjórnin er með á prjónunum og varðar þennan mikilvæga málaflokk og hygg að með því hafi ég svarað spurningum hv. þingmanns um stefnumótun og markmið ríkisstjórnarinnar á þessu sviði.

Ég tek jafnframt undir það sem hv. þingmaður sagði, hér er ekki um að ræða einkamál neins tiltekins stjórnmálaflokks, neins tiltekins stjórnmálamanns eða tiltekins aðila í þjóðfélaginu. Þetta er vandamál sem þjóðfélagið allt glímir við og við verðum öll, bæði í þessum sal og utan hans, að taka höndum saman um að freista þess að ná árangri vegna þess að öflin sem barist er við á þessu sviði svífast einskis eins og við vitum.