135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:07]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á forvarnir og teljum að það eigi að aðstoða börn við að styrkja sjálfsmynd þeirra, auka samskiptahæfni þeirra og siðferðiskennd. Það þarf að styðja allt íþróttastarf í landinu og efla sérstaklega skólana í forvarnastarfi. Við teljum að reykingar, áfengi og fíkniefni tengist að verulega miklu leyti þannig að það þarf að vinna á öllum þessum þáttum sameiginlega.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki nógu sannfærandi í málflutningi sínum varðandi forvarnastarf. Ég vil nefna tvö dæmi. Við áttum hér mikla umræðu um reykingar og það var ákveðið, m.a. að frumkvæði Framsóknarflokksins, að koma í veg fyrir að reykt væri á veitinga- og skemmtistöðum. Þá fór í gang talsverð umræða þar sem kröftugir aðilar innan Sjálfstæðisflokksins fundu því allt til foráttu. Þá ályktaði t.d. SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, gegn forræðishyggju og sagði að Alþingi hefði sett ofstækisfull lög sem legðu sekt við því að veitingahúsaeigendur leyfðu gestum sínum að reykja innan dyra. Það kom upp talsverð mótstaða innan Sjálfstæðisflokksins.

Núna er annað mál hér fyrir þinginu sem sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á, nokkrir þingmenn þar sérstaklega, og það er að leyfa sölu á bjór og léttu víni í matvöruverslunum. (Gripið fram í.) Þar fer fremstur í flokki hv. alþingismaður Sigurður Kári Kristjánsson með stuðningi hæstv. heilbrigðisráðherra sem er yfirmaður forvarna á Íslandi.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki sannfærandi málflutningur. (Gripið fram í: … á móti þessu.) Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að tala skýrar í forvörnum. Það er mjög mikilvægt að við náum árangri. Við höfum verið á réttri leið og það má ekki glutra niður þeim árangri sem við höfum náð.