135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Vímuefnavandinn er ærinn og hefur ekki farið minnkandi á síðustu árum heldur þvert á móti, þrátt fyrir töluverða viðleitni af hálfu opinberra aðila til hins gagnstæða. Þó verður að segjast eins og er að þessi mál eru fyrst og fremst á ábyrgð einstaklingsins sjálfs. Hver og einn ræður sjálfum sér í þeim efnum, er sinnar gæfu smiður. Foreldrar bera fyrst og fremst ábyrgðina á uppeldinu og því að tileinka börnum sínum þau viðhorf að forðast vímuefni hver svo sem þau kunna að vera.

Hið opinbera leikur stórt hlutverk í þessum málum með stefnu sinni og þeim áherslum sem það leggur, löggjöf sem það setur o.s.frv. Því er ekki að neita að borist hafa mjög misvísandi skilaboð frá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum, á undanförnum árum, sem hafa dregið úr gildi þess sem gert hefur verið vel á þessu sviði.

Ríkið stóð myndarlega að herferð til að draga úr reykingum sem hefur tekist mjög vel þótt slaki hafi orðið á því á síðustu árum. En það hefur greinilega náðst mikill árangur í því að draga úr reykingum.

Varðandi áfengi hefur öðru máli gegnt. Þar hafa opinberir aðilar gengið fram fyrir skjöldu í að brjóta niður þær takmarkanir sem skapast hafa vegna aðgengis og verðs á áfengi. Sveitarfélög hafa keppst við að leyfa opnun vínveitingastaða sem lengst og jafnvel allan sólarhringinn og fjölga þeim. Hið opinbera hefur lækkað verðgildi áfengisgjalds um þriðjung á innan við einum áratug á sterkum vínum. Það hefur verið allt of áfengisvinsamleg stefna í gangi af hálfu stjórnmálamanna og opinberra aðila. Við getum breytt miklu í þessum efnum með því að breyta hugarfarinu og breyta stefnu hins opinbera.