135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[14:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil einungis taka undir orð hæstv. utanríkisráðherra varðandi það að nú kannski opnast möguleikinn á því að taka vatnalögin endanlega upp. Ef vilji Samfylkingarinnar er enn sá hinn sami og hann var þegar Samfylkingin ásamt okkur Vinstri grænum kom í veg fyrir að vatnalögin tækju gildi þegar ríkisstjórnin vildi að þau tækju gildi tel ég að þeirri baráttu ljúki ekki fyrr en við breytum þeirri löggjöf sem samþykkt var. Þá er ég ekki bara að tala um gildistökuákvæðið, heldur að við breytum henni í hólf og gólf, t.d. í takt við þá tilskipun sem hér liggur fyrir.

Það var eitt atriði sem mig langaði til að benda á líka. Það varðar þann tíma sem liðinn er frá því að tilskipunin var gerð eða undirrituð. Hún er undirrituð síðla árs 2000. Nú er komið síðla árs 2007 og ef ég man rétt er þetta spurning um fresti til að innleiða þetta þannig að ég spyr hvort við megum eiga von á því að hér verði allt sett í fullan gang, rakettan send af stað og okkur gert að innleiða þetta með mjög miklu hraði. Það þætti mér miður. Ég tel að þetta mál þurfi verulegrar skoðunar við þannig að ég hefði viljað fá að heyra hér varðandi frestina hvort verið sé að reka á eftir okkur og hvort við séum fallin á tíma eins og svo oft áður þegar við innleiðum tilskipanir frá Evrópusambandinu.