135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[14:53]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:

1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/187/EB frá 13. október 2003, um að koma á fót kerfi með viðskipti fyrir heimildir til losunar gróðarhúsalofttegunda innan bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kyoto-bókunarinnar.

3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2216/2004, frá 21. desember 2004, um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB.

4. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004, um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun og losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.

5. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006, um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kyoto-bókuninni í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.

Ákvörðun þessi, virðulegi forseti, kallar á lagabreytingar hér á landi þar sem ekki er lagastoð í íslenskum lögum fyrir tvær fyrstnefndu gerðirnar, þ.e. tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og 2000/101/EB. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er ákvörðunin prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeim tveimur tilskipunum sem lagastoð skortir fyrir.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB kemur á fót kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins. Samið var um sérstaka aðlögun fyrir Ísland vegna þeirrar atvinnustarfsemi hér á landi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar þar sem losun koldíoxíðs frá umræddum fyrirtækjum er hverfandi hluti af heildarlosun hér á landi.

Markmið tilskipunarinnar er að skapa efnahagslegan hvata fyrir fyrirtækið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en tilskipunin er liður í aðgerðum Evrópusambandsins til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt Kyoto-bókuninni. Viðskiptakerfið gerir fyrirtækjum kleift að selja losunarheimildir sem þau fá úthlutað af stjórnvöldum í því ríki þar sem þau starfa takist þeim að finna leiðir til að draga úr losun. Þá geta fyrirtæki einnig keypt heimildir þurfi þau fleiri heimildir en þeim var úthlutað.

Núverandi gildissvið tilskipunarinnar tekur annars vegar til losunar frá starfsemi sem talin er upp í I. viðauka við tilskipunina, þ.e. orkuframleiðslu, járn-, jarðefna- og pappírsiðnaðar, og hins vegar til ákveðinna gróðurhúsalofttegunda sem eru taldar upp í II. viðauka. Af I. viðauka leiðir að á fyrsta gildistíma tilskipunarinnar nær hún aðeins til koldíoxíðs.

Vegna þessa þrönga gildissviðs fellur afar lítið af losun á Íslandi undir tilskipunina, einungis vararafstöðvar Alcans í Straumsvík og Orkuveitu Reykjavíkur sem og 10 fiskimjölsverksmiðjur en af þeim eru tvær ekki starfræktar lengur þótt þær hafi gilt starfsleyfi. Miðar íslenska aðlögunin sem samið var um við framkvæmdastjórnina við það að svo lengi sem losun á CO 2 frá framangreindri einstakri starfsemi fari ekki yfir 25 þús. tonn á ári lúti engin starfsemi á Íslandi ákvæðum þessarar tilskipunar. Hefur þessi aðlögun þannig í för með sér að tilskipunin mun taka gildi hér á landi ef ný starfsemi hefst hérlendis sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar eða sú starfsemi sem tekin hefur verið undan gildissviði tilskipunarinnar í íslensku undanþágunni fer yfir 25 þús. tonna markið.

Þá er einnig ljóst að verði gildissvið tilskipunarinnar útvíkkað til fleiri geira og lofttegunda mun tilskipunin gilda hér á landi. Einnig gætu íslensk stjórnvöld ákveðið að fella atvinnustarfsemi sem er í dag utan gildissviðsins undir tilskipunina í samræmi við heimildarákvæði þar um.

Tilskipunin mælir fyrir um að fyrir hvert 5 ára viðskiptatímabil setji sérhvert ríki sér áætlun, landsbundna úthlutunaráætlun, um hvernig staðið verði að úthlutun losunarheimilda á grundvelli Kyoto-bókunarinnar. Þannig eru ríkin í raun að úthluta til fyrirtækja hluta af þeim losunarheimildum sem viðkomandi ríki hafa samkvæmt Kyoto-bókuninni. Á grundvelli landsbundnu úthlutunaráætlunarinnar úthlutar viðkomandi ríki síðan losunarheimildum til fyrirtækja sem stundar þá starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar. Kemur fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar að meðan ekkert fyrirtæki á Íslandi falli undir gildissvið tilskipunarinnar sé Ísland undanþegið skuldbindingum sem kveðið er á um í tilskipuninni, þar með talið að leggja fram landsbundna úthlutunaráætlun. Það er auðvitað ekkert, virðulegur forseti, sem bannar okkur hins vegar að gera það, en okkur ber ekki skylda til þess samkvæmt tilskipuninni.

Fyrirtæki geta stundað viðskipti með losunarheimildir sem þau fá úthlutað á innri markaðnum. Á þennan hátt eru skapaðir efnahagslegir hvatar fyrir fyrirtæki til að draga úr losun þar sem þau geta selt heimildir sem þau nýta ekki. Viðskiptin geta átt sér stað yfir landamæri þannig að losunin eigi sér stað í öðru landi en heimildin var upprunalega gefin út í. Losunin er þó alltaf talin á reikning þess lands sem gaf heimildina upprunalega út.

Tilskipun 2004/101, sem einnig var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir, víkkar út kerfi Evrópusambandsins að því er varðar verkefniskerfi Kyoto-bókunarinnar. Tilskipunin gerir fyrirtækjum kleift að afla sér eininga í viðskiptakerfinu með þátttöku í verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnvæddum ríkjum, þ.e. ef þau grípa til einhverra slíkra aðgerða sem eru þá viðurkenndar sem slíkar, eða ef þau taka þátt í verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þróunarríkjunum.

Aðildarríkin ákveða í landsbundinni úthlutunarlosun sinni að hve miklu leyti þau heimila þátttöku í verkefnum af þessu tagi og þau geta auðvitað sett á það ákveðið þak. Hugmyndin með þessu er að skapa hvata fyrir fyrirtæki sem falla undir tilskipunina til að taka þátt í verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka þar með alþjóðlega eftirspurn eftir slíkum verkefnum.

Eins og áður hefur komið fram kalla þessar tvær tilskipanir á lagabreytingar hér á landi. Unnið er að málinu í umhverfisráðuneytinu en meðan aðlögun Íslands gildir þarf Ísland ekki að innleiða efni tilskipananna sem hér um ræðir.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar. Ég geri ráð fyrir því, eins og kom fram í umræðunni um vatnatilskipunina, að umhverfisnefnd þingsins vilji kannski fá að líta eitthvað á þessi mál líka.