135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[15:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra á kollgátuna. Ég held að þetta sé einmitt annað dæmi um tilskipun sem þarf að fara vel yfir. Þessi tilskipun er reyndar ekki sambærileg þeirri fyrri sem við ræddum áðan en þetta losunarbókhald er afar flókið mál og eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er málum þannig háttað á Íslandi í dag að hér er engin starfsemi sem lýtur í sjálfu sér ákvæðum þessarar tilskipunar. Það vekur hins vegar upp vangaveltur og upp í hugann koma stórar álverksmiðjur sem hafa verið að rísa hér á landi og kannski eru fleiri í pípunum án þess að hægt sé að segja til um það svo óyggjandi sé á þessari stundu. Álverksmiðjurnar í Evrópusambandinu munu vera undanþegnar þeim skilyrðum sem hér eru sett, þ.e. þær falla ekki undir þessi bókunarmál og þetta losunarbókhald, og það er út af fyrir sig umræðuefni sem vert væri að taka í þessari umræðu.

Að því sögðu langar mig til að segja, hæstv. forseti, að það er auðvitað umhugsunarefni þegar við fáum til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga mjög flóknar tilskipanir eins og þær tvær sem hér er verið að mæla fyrir, að þá skuli ekki vera hægt að efna til umræðu um þær í þingsölum við fyrri umræðu vegna þess að þær eru þess eðlis að að baki liggur mjög flókin vinna og flóknir textar sem eru kannski ekki á færi hvers og eins þingmanns að gefa sér tíma til að sökkva sér ofan í. Maður skyldi samt ætla að þingmannanefnd okkar, EES-nefndin, hafi kynnt sér þessa hluti og viti og átti sig á hvað hér er verið að innleiða. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða mjög vel í sambandi við innleiðingu Evróputilskipananna, þ.e. hvar umræðan fer fram um það hvort við eigum yfir höfuð að innleiða allar þessar tilskipanir eða ekki. Hún fer ekki fram hér í þingsölum og mér er til efs að mikil umræða fari fram í Evrópunefndinni okkar þó svo að þessar tilskipanir séu kynntar þar. Ég held að það sé í sjálfu sér áhyggjuefni að það er ekki fyrr en búið er að smíða lagafrumvörpin sem innleiðingarnar eða tilskipanirnar leiða af sér að hin eiginlega umræða fer fram og þá er það kannski of seint.

Mér kemur í hug raforkutilskipun Evrópusambandsins. Það er tilskipun sem talað hefur verið um á seinni stigum að hefði kannski verið hægt að sækja um undanþágu fyrir, þ.e. markaðsvæðing raforkukerfisins. Á sínum tíma var það hins vegar ekki gert og sú umræða varð ekki nægilega djúp til að hún leiddi til þess að sótt yrði um undanþágu frá þeirri tilskipun. Það er skoðun mín enn í dag að ef sú umræða hefði verið tekin á þeim tíma áður en tilskipunin var innleidd, hefði mátt forða okkur frá ýmissi óáran sem við sitjum í og erum að reyna að greiða úr í dag.

Varðandi losunarbókhaldið og þá tilskipun sem er hér til umfjöllunar, þá erum við búin að leiða í íslensk lög ákveðið kerfi í þessum efnum. Fjallað var ítarlega um það í umhverfisnefnd og ég held að það sé að komast vel af stað og fyrirtæki farin að átta sig á ábyrgð sinni í þessum efnum. Losunarbókhaldið kemur til vegna þess að við viljum reyna að setja ákveðnar skorður við losun gróðurhúsalofttegunda og þjóðinni er auðvitað orðið kunnugt hvers vegna það er. Það er vegna þess að lífkerfi jarðarinnar stafar veruleg ógn af afleiðingum hlýnunar lofthjúpsins og losunarbókhaldið er því í beinu samhengi við það að reyna að bæta lífsskilyrði á jörðinni.

Eftir að hafa rennt augum yfir textann sem við erum að innleiða hér kem ég að atriði sem ég tel mig oft hafa rekið mig á áður í umræðu um þessi mál og það er krafan um kostnaðarhagkvæmni í þeim aðgerðum sem gripið er til og að hlutirnir séu alltaf gerðir á efnahagslega skilvirkan hátt. Og enn rekur maður sig á það í þessari tilskipun, sem og reyndar í öðrum sem við höfum fengið hér inn, að þessi efnahagslegi þáttur er alltaf tekinn fram fyrir og manni virðist kostnaðarhagkvæmnin alltaf vera ofar en hin eiginlega ástæða, þ.e. að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir áframhaldandi neikvæð áhrif af hlýnun lofthjúpsins. Það á eftir að kosta og það kostar fyrirtækin okkar talsverða fjármuni og auðvitað skilur maður viðleitnina við að gera þær breytingar sem gera þarf á hagkvæman hátt hvað varðar kostnað. En af því að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar gerir ráð fyrir að umhverfissjónarmiðin séu jafnhá hinum kostnaðarlegu sjónarmiðum, finnst mér önugt að maður skuli aftur og aftur reka sig á að kostnaðarhagkvæmnin er tekin út fyrir sviga og dregin út sem sérstakur þáttur sem bera eigi fyrir brjósti eða hafa ofarlega og jafnvel efst í röð þessara athugunarefna.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í morgun á fundi þegar hún kynnti þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar í rauninni fyrst og fremst um baráttuna við loftslagsbreytingarnar, að eitt væri að setja sér markmið og annað að ákvarða leiðirnar að þeim. Ég held að við Íslendingar stöndum einmitt frammi fyrir því, við erum búin að setja okkur ákveðin markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og þau markmið eru háleit. Við ætlum okkur að draga úr losun allt að 70% á næstu árum, fram til ársins 2020. Þetta er gríðarlega háleitt markmið og það verður mjög erfitt að ná því. Það sem blasir við er að það á eftir að setja niður og koma með fyrir Alþingi þær leiðir sem menn ætla að fara að því háleita markmiði. Ef til vill er þessi tilskipun liður í því að hjálpa okkur að marka þær leiðir, setja þær niður og ákveða hverjar þær eigi að vera. Ég vona það svo sannarlega því að ég held að þetta sé eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við alþingismenn og þjóðin öll þurfum að takast á við á allra næstu árum, og jafnvel bara dögum og mánuðum.