135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

243. mál
[15:31]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Breytingarnar eru í fyrsta lagi gerðar í þeim tilgangi að veita ráðherra heimild til að fela Veðurstofu Íslands að gera úttekt á hættu á ofanflóðum, þ.e. snjóflóðum og skriðuföllum í dreifbýli á þeim stöðum þar sem slík flóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða ef hætta er talin á slíku.

Ástæða breytingarinnar er einkum sú að í lögunum er ekki fyrir hendi heimild til að ofanflóðasjóður greiði kostnað fyrir mat á hættu vegna ofanflóða í dreifbýli enda var með lagasetningu og eflingu ofanflóðasjóðs í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri 1995 fyrst og fremst litið til þess vanda sem við blasti í þéttri byggð sveitarfélaga sem bjuggu við ofanflóðahættu.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur Veðurstofa Íslands öðlast mikla reynslu í gerð hættumats og því þykir rétt að fela henni að meta gróflega hættu á ofanflóðum á byggð í dreifbýli og afla þannig gagna sem sveitarstjórnir gætu nýtt við almannavarnastörf innan sinna sveitarfélaga.

Hér er hins vegar ekki, frekar en með hættumat í þéttbýli, gert ráð fyrir að ofanflóðasjóður greiði fyrir gerð hættumats á nýjum byggingasvæðum í dreifbýli heldur munu sveitarfélögin og framkvæmdaaðilar verða að standa undir þeim kostnaði eins og verið hefur frá því að kröfur um hættumat á nýjum byggingasvæðum komu fram í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, lögum nr. 49/1997.

Veðurstofan telur mögulegt að vinna verkið á tveimur árum og er því gert ráð fyrir, verði frumvarpið samþykkt hér á hinu háa Alþingi, að vinna þetta verk á árunum 2008–2009.

Gengið er út frá því að úttekt þessi verði einfaldari í sniðum en hættumat í þéttbýli og lagt er til að ofanflóðasjóður greiði kostnað þann er af kann að hljótast líkt og á við um framkvæmd hættumats í þéttbýli. Ekki er gert ráð fyrir því að heimildin nái til frístundabyggðar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.