135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:38]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Umræðan sem nú er að hefjast um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum er framhald umræðu um þingsályktunartillögu sem lögð er fram af hv. þingmönnum Siv Friðleifsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Katrínu Júlíusdóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni, Valgerði Sverrisdóttur og Magnúsi Stefánssyni. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu það verkefni að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.“

Hér erum við náttúrlega komin í umræðu um jafnréttismál sem sem betur fer fær æ meira rúm í samfélagsumræðunni. Það er alveg ljóst að enn hallar á hvað þetta varðar, bæði á Alþingi og líka í sveitarstjórnum. En þetta vekur líka hugsunina um stöðu kvenna í samfélaginu.

Ég var að lesa bók um daginn sem fjallar um kjör íslenskrar alþýðu og þar er verið að segja frá því að konur hafi verið með helmingi lægri laun en karlmenn fyrir sömu vinnu. Ég man eftir því sem ungur drengur að laun kvenna voru helmingi lægri, eða mun lægri, heldur en karla, bæði í frystihúsum og annars staðar. En sem betur fer hefur þetta lagast. Þegar maður hugsar um það hvernig staða kvenna var á launamarkaði þá er það náttúrlega alveg ótrúlegt að það skuli vera svona stutt síðan að ákvæði í lögum kom um þetta. Hins vegar er líka þarft og til eru um það skýrslur að enn vantar mikið á að það sé jafnrétti í launum milli karla og kvenna. Við þurfum að vera vakandi í þessum málum.

Til þess að hrinda þessu af stað þá kemur fram hérna í greinargerðinni, frú forseti, að gefnir eru svona þrír möguleikar og ætla ég að lesa úr greinargerðinni. Þar stendur, með leyfi forseta:

„1. Fleiri konur þurfa að gefa kost á sér til stjórnmálastarfa. Til þess að svo megi verða þarf að auka fræðslu meðal almennings, í fjölmiðlum og í skólum um mikilvægi aukins jafnréttis í stjórnmálum sem annars staðar.

2. Konur þurfa meiri hvatningu en karlar, ef til vill vegna þess að þær hafa færri kvenfyrirmyndir í stjórnmálum en karlar.

3. Það þarf að vera vilji til þess innan stjórnmálaflokkanna að fjölga konum á framboðslistum og þar skipta fyrstu sætin mestu máli.“

Þessi atriði skipta öll miklu máli en í sambandi við það sem ég nefndi fyrst, fræðslu meðal almennings og að hvetja konur meira til starfa eins og sagt er í öðrum liðnum, þá langar mig til til að segja að ein hvatning er líka alveg greinileg og þyrfti að vera, þ.e. varðandi kjör margs fólks í sveitarstjórnum. Fólk leggur á sig alveg gríðarlega mikla vinnu fyrir sína sveit og fyrir sína byggð og fyrir bæinn eða hreppinn sem það er að vinna fyrir. En á móti koma engin laun. Þetta þarf náttúrlega að íhuga vel.

Við getum hugsað okkur einstæða móður sem hefur mikið til málanna að leggja í sambandi við samfélagsmálin. En hún kannski treystir sér hreinlega ekki til að koma fram og leggja fram sínar tillögur eða hugmyndir til úrbóta í samfélagi sínu, í sveitarstjórninni, í sveitarmálunum vegna þess að hún hefur ekki efni á því.

Þetta sá ég þegar ég þjónaði sem sóknarprestur í Grundarfirði. Þá var ég ritari sveitarstjórnarinnar, skrifaði fundargerðir og fylgdist náttúrlega með því sem var að fara fram fór. Eitt af því sem ég varð var við var hversu illa launaðir sveitarstjórnarmenn voru, að minnsta kosti þá. Ég vona að þetta hafi lagast síðan. En þarna í þessum tilvikum leggur fólk mikla vinnu á sig. Það að bæta kjör sveitarstjórnarmanna gæti skipt miklu máli í sambandi við þetta, þ.e. að konur fari tíðar í framboð til sveitarstjórna.

Ein tillaga hefur verið mjög mikið hér í umræðunni sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram um að skipa nefnd til að athuga hvort það eigi að finna önnur heiti yfir ýmis embætti eins og ráðherra. Það er karlkynsorð og orðið herra felur ákveðið í sér með þessu. Mig langar að skjóta því inn að þetta er angi af allri umræðunni. Þó langar mig að benda á að í flestum málum nágrannalandanna er talað um að ráðherra sé minister. En minister þýðir í raun og veru þjónn, sá sem þjónar og er til þjónustu fyrir fólkið. Þess vegna langar mig að segja í þessu sambandi að það væri íhugunarinnar virði hvort ekki eigi að nota það hugtak eða þá hugsun þegar við veltum þessum starfsheitum fyrir okkur.

Eitt tel ég skipta miklu máli í jafnréttisbaráttunni og hugsuninni um að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum og í stjórnum og ráðum í samfélaginu. Það er að það komi markviss fræðsla um jafnréttismál inn í skólana og það komi umræða inn í skólana, inn í námsefnið um manngildið, um gildi hverrar persónu fyrir sig hvort sem það er karl eða kona. Ef við tökum svona lagað inn í námið í skólanum, í námsefnið, þá held ég að það geti smám saman haft þau áhrif að bæði kynin fari að horfa öðruvísi á stöðu kvenna í samfélaginu vegna þess að það er oft það sem er tálmun í jafnréttisbaráttunni, þ.e. viðhorf sem eru rótgróin og þarf í raun að breyta.