135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:55]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega hvað þessi umræða hefur verið lífleg. Okkur tókst ekki að ljúka henni í fyrstu umferð um daginn og höldum áfram núna. Fleiri hafa tekið til máls um þessa tillögu núna en þegar sambærileg mál hafa verið flutt áður. Bæði hafa fleiri talað og þingmenn talað sterkar og auk þess hafa, að ég held alveg örugglega, fleiri karlmenn talað. Það er sérstaklega ánægjulegt að þeir skuli hafa gert … (KVM: Og sem heita Karl.) Og meira að segja sem heita Karl, eins og hv. þingmaður heitir. Þannig að þetta er ekki einkamál kvenna, að benda á að fara þurfi í verulegt átak til að auka hlut kvenna í stjórnmálum.

Hér hefur verið komið inn á muninn á þessari tillögu, sem við erum núna að ræða, og tillögu sem ég flutti á sínum tíma og var samþykkt. Í henni fólst að sett var upp nefnd sem átti að auka hlut kvenna í stjórnmálum almennt, átaksverkefni sem átti að standa í fimm ár og fékk fjárframlög frá hinu opinbera, sérstaklega í það verkefni, í nefndina sjálfa.

Sú tillaga var samþykkt hér á sínum tíma og nefndin fór af stað. Ég var fyrsti formaður þeirrar nefndar og nefndin fékk fjármuni í á fjárlögum í fimm ár en var því miður lögð niður. Reyndar fólst það í tillögunni að hún ætti bara að starfa í fimm ár. Starfið tókst það vel að vilji margra var að halda áfram en þá var ekki meirihlutastuðningur við í fjárlaganefndinni á sínum tíma. En nefndin náði miklum árangri og hlutur kvenna á Alþingi jókst um 10% á þessum tíma.

Tillagan sem við flytjum núna er um að Jafnréttisstofa fái þetta hlutverk, að keyra áfram svona verkefni og fái aukinn fjárstuðning frá hinu opinbera til að fara í svona verkefni. Það er ekki verið að tala um alveg sérstaka nefnd í þessu tilliti heldur að Jafnréttisstofa fái það verkefni að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum af því að það eru næstu kosningar sem standa fyrir dyrum.

Fyrr í dag fjölluðum við um mælikvarða á lífskjör. Það hefur stundum komið fram að Ísland skori hátt varðandi jafnréttismál en að mörgu leyti er það fölsk niðurstaða. Ég tel að það sé röng niðurstaða vegna þess að inn í þann mælikvarða eru tekin mörg atriði. Eitt sem vegur talsvert þungt á þeim mælikvarða er forsetaembættið. Af því að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var forseti í talsvert mörg ár og fyrst kvenna kosin í lýðræðislegu ríki sem forseti, sem var afar mikið skref til framfara, þá vigtar sá tími mikið inn í þennan mælikvarða. Það er ekki gerður greinarmunur á forsetaembætti Íslands og forsetaembættinu í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið. Það embætti hefur því frekar mikið vægi varðandi áhrif og völd. Í forsetaembættinu hér felast jú ákveðin völd en þau eru ekki sambærileg við völd forseta Bandaríkjanna, svo dæmi sé tekið.

Þessi mælikvarði er að vissu leyti ónákvæmur og gefur ranga mynd af stöðu jafnréttismála á Íslandi. Við sjáum það þegar við berum saman árangur kvenna í stjórnmálum að hann er slakur hér miðað við hin Norðurlöndin. Við stöndum að baki hinum Norðurlöndunum en erum þó betur stödd en Færeyjar og Grænland. En við erum talsvert langt að baki hinum Norðurlöndunum.

Varðandi hlutföllin þá er það rétt sem hefur komið fram í umræðunni að við höfum rekið okkur undir glerþakið. Í síðustu alþingiskosningum náðum við rétt rúmlega 30%, 31,7%, þ.e. 20 konur voru kjörnar og 43 karlar. Það er ágætt að snúa þessu á haus. Í stað þess að segja að við höfum náð rúmlega 30% þá er alveg eins hægt að segja að karlarnir hafi náð tæplega 70%. Kannski væri nær að tala um þetta á þeim nótum. Það er meira lýsandi fyrir það hvað þessi hlutföll eru skökk, að við búum við að hlutur karla er upp undir 70% á þinginu.

Við erum ekki búin að ná því hlutfalli í þingkosningum sem við náðum 1999. Þá náðum við tæplega 35%. Svo var mikið bakslag 2003 en árið 2007 varð svolítil framför. Við höfum ekki náð þeirri stöðu sem við náðum 1999 og erum enn talsvert langt á eftir því. Varðandi sveitarstjórnirnar þá höfum við farið hækkandi í hlutföllum og í síðustu sveitarstjórnarkosningum var hlutur kvenna 35,9%. Maður vill ekki sjá bakslag í næstu sveitarstjórnarkosningum og því er þessi tillaga flutt.

Fyrr í umræðunni var skemmtileg umræða um af hverju konur hafi tollað verr í stjórnmálum en karlar. Þetta er umræða sem hefur víða átt sér stað, sérstaklega á Norðurlöndunum. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið skoðað á Íslandi. Það væri gaman að skoða hvort konur hér hafi staldrað styttra við í stjórnmálum. Maður veit ekki hvort það er svo hér eða ekki. En það hefur komið fram á Norðurlöndunum að þær hafa náð kjöri en hætt mun fyrr en karlar sem hafa náð kjöri.

Ástæðurnar sem hafa verið gefnar hafa verið margar. Sérstaklega hefur verið tilgreint að þetta starf sé að sumu leyti mjög karllægt þótt auðvitað breytist bæði kynin í takt við þróunina. En það verður að segjast eins og er, að þrasgjörn umræða hentar ekki alltaf konum og virðist henta körlum frekar. Auðvitað eru margar skýringar á því. Þetta er mjög mikið samkeppnisumhverfi. Það þarf að keppa um þessi sæti og konur, þótt margar þeirra séu miklar keppnismanneskjur, eru almennt meira fyrir samvinnu en að olnboga sig áfram. Auk þess fylgir starfinu geysilegt álag.

Ég held að fólk í stjórnmálum, hvort sem það er á sveitarstjórnarstigi eða í landsmálum, sé ekki mikið að dúlla sér í fríi. Það er bara þannig og mjög óréttmæt umræða sem oft fer fram um þingstörfin. Maður þekkir það sérstaklega vel að stundum fer fram óréttmæt umræða um þau. Ég get fullyrt að þingmenn almennt ná ekki endurkjöri og gefa ekki kost á sér aftur séu þeir ekki alltaf á fullu við að sinna störfum sínum. Það væri mjög áhugavert, virðulegi forseti, að skoða hvort íslenskar konur tolli verr í stjórnmálum en íslenskir karlar.

Ég vil líka draga inn í þessa umræðu að fjölskylduábyrgðin hefur verið meiri á konum en körlum, hvað sem hver segir. Þetta hafa allar rannsóknir sýnt þótt karlarnir hafi fjölgað þeim klukkustundum sem þeir sinna heimilinu þá er það langt að baki þeim tíma sem konurnar nýta til að sinna börnum og heimili.

Einnig verður að draga fram, sem er kannski svolítið viðkvæm umræða, að þegar konur sækja fram og rætt er um að auka hlut kvenna í stjórnmálum þá skapast að vissu leyti togstreita. Mörgum körlum finnst að sér sótt og sumir mótmæla og segja: Þetta er nú allt að koma og er nú ekki svo slæmt. Aðrir segja lítið og þegja og taka ekki þátt í þessari umræðu. Reynslan sýnir manni að þessi umræða hljómar í eyrum margra karlmanna sem hálfgert nagg. Þeir upplifa hana þannig að að þeim sé vegið og þeir heyra allt annað en það sem er sagt. Sumir upplifa hana svo að þeir séu persónulega sakaðir um að vera vondir við konur og eitthvað slíkt, sem enginn heldur fram.

Þegar verið er að sækjast eftir sætum sem eru setin af karlmönnum þurfa þeir náttúrlega að víkja. Annars komast ekki nýju konurnar að. Þarna skapast því mikil togstreita þannig að maður skilur að vissu leyti þá vörn sem margir karlar fara í þegar þessi umræða kemur upp. Ég held að það sé skýringin á því af hverju karlar hafa tekið svo lítinn þátt í þessari umræðu. Þeim finnst þeir opinbera sig svo mikið og lendi í veikari stöðu fyrir vikið. Þá er auðvelt að segja: Af hverju víkur þú ekki til að koma að konu? Hvað eiga þeir þá að segja? Enginn vill beinlínis gefa eftir stöðu sína, þá vinnu sem menn hafa náð með því að leggja mikið á sig. Það er því mjög viðkvæmt, af skiljanlegum ástæðum fyrir karlana, að taka þátt í umræðunni.

Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að heimurinn gæti hugsanlega verið friðvænlegri ef konur hefðu meiri áhrif. Ég held að það sé alveg rétt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók það stórt upp í sig hér að að það yrði ekkert vit í heiminum meðan karlar réðu svo miklu. Það var ansi mikið sagt en ég held að það sé nokkuð mikið til í því að konur líta oft öðruvísi á úrlausnir mála. Þær eru ekki eins gjarnar á að leysa úr málum með kröftum og vopnaskaki. Ég hugsa að þetta sé alveg hárrétt ályktun sem viðkomandi hv. þingmaður hefur komið á framfæri og reyndar fleiri í umræðunni.

Ég vil líka minnast hér á það, virðulegi forseti, í lokin, að samstaða kvenna skiptir miklu máli þegar fjallað er um þeirra framgang. Ég og miklu fleiri konur hafa upplifað hvað samstarf skiptir miklu máli og líka þvert á flokksbönd. Margar konur hafa lent í ýmsum rimmum innan sinna flokka og verið að þeim vegið eins og gengur og gerist í stjórnmálum. Þær hafa þá margar hverjar fengið stuðning frá konum úr öðrum flokkum.

Ég get nefnt það hér, virðulegi forseti, að ég hef fengið slíkan stuðning. Ég vil leyfa mér að nefna hérna sérstaklega nöfn í því sambandi, þótt það sé kannski skrítið að nefna nöfn. Ég vil nefna hér Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrrverandi þingmann, Þórunni Sveinbjarnardóttur, hæstv. umhverfisráðherra, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, hv. þingmann og Margréti Sverrisdóttur, sem er núna í borgarstjórn Reykjavíkur. Allar þessar konur og ég gæti nefnt fleiri nöfn, hafa tekið upp hanskann fyrir konur í öðrum flokkum þegar að þeim hefur verið sótt og stutt við bakið á þeim í opinberri orðræðu. Ég held að það sé mikilvægt og til eftirbreytni.

Ég hef reynt að gera þetta líka. Ég held að konur eigi, meðan við höfum ekki náð helmingshlutfalli í stjórnmálum, þá eigum við að reyna að styðja hver aðra þótt ýmsir innan okkar flokka hoppi ekki hæð sína af gleði yfir því. Menn keppa einnig innbyrðis á milli flokka í kjördæmum.

Mig langar í blálokin, virðulegi forseti, að segja frá því að ég heyrði um daginn mjög kaldhæðnislega setningu sem tengist jafnréttismálunum. Hún var mjög kaldhæðnisleg. Þau orð voru látin falla í umræðu um hvenær yrði komið á fullu jafnrétti í stjórnmálum. Svarið var að fullu jafnrétti yrði komið á þegar nokkrar óhæfar konur komast til æðstu valda, þá verði fullu jafnrétti náð. Það er mjög kaldhæðnislegt að segja þetta af því að í því felst að óhæfir karlar hafi valist til æðstu metorða.

Ég vil ekki taka beint undir þetta. En vildi samt koma þessu á framfæri af því að ég tel að þær konur sem hafa náð árangri í stjórnmálum á Íslandi í dag þurft langflestar að leggja mikið á sig og berjast mjög hart fyrir því að ná eyrum manna, bæði innan flokka sinna, innan kjördæma og meðal landsmanna. Ég held ég geti fullyrt, virðulegi forseti, að þær konur sem starfa í stjórnmálum í dag, þessar allt of fáu, hafi lagt alveg geysilega mikið á sig. Þær hafa afar mikið til málanna að leggja.