135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[16:10]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem eingöngu til að ítreka að mjög mikilvægt er að tillagan verði samþykkt. Við þurfum að gera virkilegt átak í að efla konur til stjórnmálaþátttöku fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram undan eru. Ég tel mjög eðlilegt að Jafnréttisstofa taki það verkefni að sér, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir.

Þegar fyrra verkefnið var sett af stað 1997–1998, og stóð í fimm ár eins og hér hefur komið fram, var ekki til stofnun sem gat unnið verkefni sem þetta með sambærilegum hætti eins og við gerðum þá.

Ég var flutningsmaður að þeirri tillögu og er satt að segja mjög ánægð með að hafa staðið að því verkefni með mörgum fleirum. Ég held að sú nefnd, sem ég vann í allan þann tíma sem hún var að störfum við þetta sérstaka átak, hafi unnið mjög gott starf. Bæði var unnið að því að efla konur til starfa og til stjórnmálaþátttöku og vakin athygli á því í þjóðfélaginu hversu mikilvægt væri að konur tækju þátt í stjórnmálastörfum.

Hluti af því var ákaflega skemmtileg auglýsingaherferð sem sett var í gang og ótrúlega mörg skemmtileg slagorð sem þar komu upp. Ég hefði í rauninni átt að hafa þau með mér hingað til að fara yfir hvernig baráttan var lögð upp. Auðvitað er mikilvægt að það sé gert með ákveðnum húmor og skemmtilegheitum til að vekja athygli á málinu en jafnframt þarf að koma fram sú djúpa alvara sem þarna er að baki. Ég held að okkur hafi á þeim tíma tekist ágætlega að koma málinu á framfæri og vekja á því athygli.

Nú er umhverfið orðið annað og þess vegna held ég að rétt sé að Jafnréttisstofa fái verkefnið og vinni með þeim hætti sem hentar núna. Þar er margt hæft og gott fólk sem hefur mikla þekkingu á jafnréttismálum.

Ég held þó að nauðsynlegt sé að stuðningur komi frá Alþingi við að Jafnréttisstofa ráðist í verkefnið, að árétting komi frá hinum pólitíska vettvangi inn í stofnunina til þess að takast á við það. Ekki er alveg gefið að stofnunin ráðist í verkefni sem að hluta til er mjög pólitískt að þessu leyti þegar horft er til kosninga því að um er að ræða átak sem vinna á að fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Nefnt var að konur væru styttri tíma í stjórnmálastörfum sínum en karlar og það er íhugunarefni fyrir okkur hvað veldur því. Full ástæða er til að rannsaka málið og bregðast við því hvers vegna konur finna sig ekki í stjórnmálastörfum til lengri tíma.

Við erum nokkuð margar sem höfum þraukað í dálítinn tíma og sumar okkar hafa jafnvel verið í sveitarstjórnarmálum — af því að ég horfi hér framan í hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Samt sem áður er það svo að þetta virðist vera nokkurt vandamál og þá er um að gera að bregðast við því. Ef til vill segja sumir að karlarnir mættu vera eitthvað skemur, að það sé vandamálið í sjálfu sér. Ég held samt sem áður að reyna eigi að hafa umhverfi okkar stjórnmálamanna þannig að það hæfi sem flestum. Markmiðið er að sem flest sjónarmið í þjóðfélaginu komi fram, að landinu sé stýrt með sem flest sjónarmið á að baki þeim ákvörðunum sem við tökum á hinu háa Alþingi.