135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

varðveisla Hólavallagarðs.

51. mál
[16:23]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir mikilvægu máli um varðveislu Hólavallagarðs, sem er tillaga til þingsályktunar og hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að skipa nefnd til að vinna að því að tryggja varðveislu, uppbyggingu og kynningu á þeim umhverfis- og menningarsögulegu verðmætum sem eru fólgin í kirkjugarðinum við Suðurgötu, Hólavallagarði.“

Þetta er í fimmta sinn sem sú sem hér stendur mælir fyrir þessari tillögu en hún hefur verið flutt fjórum sinnum áður í aðeins annarri mynd. Margir þingmenn úr öllum flokkum og alls staðar af landinu hafa verið meðflutningsmenn. Að þessu sinni er flutningsmaður einungis sú sem hér stendur en það kom til vegna þess að ekki náðist að kalla til fleiri þingmenn að loknum kosningum. Margir voru orðnir ráðherrar og aðrir fallnir út af þingi sem höfðu verið með á tillögunni og ég var ekki á landinu.

Tillögunni er að þessu sinni vísað til hæstv. umhverfisráðherra en áður höfðum við lagt til að henni yrði vísað til hæstv. menntamálaráðherra. Ástæðan er sú að árið 2005 var garðurinn ein af níu tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Flutningsmönnum þótti þá ástæða til að beina sjónum að þeim þætti garðsins en sérkenni hans eru mörg og merkileg.

Björn Th. Björnsson listfræðingur benti á í bók sinni um Minningarmörk í Hólavallagarði að garðurinn væri stærsta og elsta minjasafn Reykjavíkur. Undir það hafa margir tekið. Garðurinn var aðalkirkjugarður Reykjavíkur í rúmlega heila öld og er enn þá verið að grafa í hann. Hann var eini kirkjugarður Reykjavíkur og aðalkirkjugarður frá 1838–1932 en þá var búið að úthluta öllum leiðum í garðinum.

Mikilvægt er að varðveita þær minjar sem eru í garðinum. Þær ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir, bæði vegna sögu Íslands og menningar. Minningamörkin í garðinum, eða legsteinarnir, segja sögu um þróun bæjarins og fólkið sem lifði og starfaði í Reykjavík. Það er ljóst, eins og Björn Th. Björnsson bendir á, að margir legsteinanna hafa kostað stórfé þegar þeir voru settir upp. Sýnir það mikla ræktarsemi og hversu mikið fyrri kynslóðir mátu minningu látinna.

Í janúar 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur deiliskipulag sem þróunarhópur Hólavallagarðs hafði látið vinna. Þar er gert ráð fyrir að Hólavallagarður njóti umhverfisverndar samkvæmt skipulags- og byggingalögum. Hverfisvernd sem slík er ekki formleg friðlýsing en líta verður á hana sem ákveðna viljayfirlýsingu borgaryfirvalda, sem umsjónaraðila garðsins, um að fara að öllu með gát.

Í fyrsta sinn sem þetta þingmál var lagt fram var það sent út til umsagnar. Tekið var tillit til allra umsagnaraðila og breytingar voru gerðar í þá veru sem lagt var til í umsögnum. Þjóðminjavörður sendi m.a. umsögn til nefndarinnar. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hefur á orði að segja megi að garðurinn sé merkt minjasafn þar sem saga okkar birtist í hnotskurn. Gildi garðsins sé mjög mikilvægt frá sjónarhóli þjóðminjavörslunnar og það felist ekki síst í þeirri heildarmynd sem þar er varðveitt með einstökum hætti í evrópsku samhengi. Þjóðminjasafnið muni leggja áherslu á nálægðina við þennan merka minjagarð.

Eitt það merkilegasta við þennan garð er að honum hefur ekki verið mikið raskað. Segja má að hann sé einn af merkustu kirkjugörðum hér á landi og jafnvel þótt litið væri til Evrópu, að minnsta kosti til Norður-Evrópu. Engar meiri háttar raskanir hafa orðið frá því að garðurinn var vígður, ef undan er skilinn stígur sem lagður var þvert yfir garðinn til að bæta aðgengi að garðinum, það er stígurinn frá Ljósvallagötu að Suðurgötu. Í eldri kirkjugörðum, t.d. á Norðurlöndum, hafa garðar verið sléttaðir út og grafið hefur verið í þá að nýju. Gamli hluti kirkjugarðsins við Suðurgötu stendur alveg eins og þegar farið var að grafa í hann með óreglulegum stígum og gröfum. Stígarnir eru ekki beinir eins og maður sér víðast hvar í kirkjugörðum. Þar eru ekki neinir skipulagðir stígar.

Einnig er lögð áhersla á að varðveita fleira, svo sem heimildir um list og táknfræði, persónusögu, ættfræði, stefnur í byggingarlist og ýmislegt fleira sem garðurinn hefur að geyma. Það er því mjög mikilvægt að við stöndum vörð um þessa þætti.

Það er einnig merkilegt við Hólavallagarð hvað hann er gróinn og hægt er að finna hátt á annað hundrað plantna í garðinum. Rannsaka mætti grasafræðina og gildi garðsins sem grasagarðs. Trjárækt á Íslandi varð ekki almenn fyrr en eftir aldamótin 1900 og gróðursetning í garðinum hófst að marki á árunum milli stríða. Í elsta hluta garðsins eru ýmsar tegundir sem eiga rætur sínar að rekja til tilrauna frá þeim tíma og í öðrum hluta garðsins er að finna einkennandi gróður fyrir eftirstríðsárin. Í garðinum er jafnframt mikill og fjölbreytilegur blómagróður úr heimilisgörðum frá síðustu öld því að fólk tók plöntur úr görðunum sínum til þess að gróðursetja á leiðum ástvina sinna.

Fleira er merkilegt við garðinn, t.d. að óvenju mikið er þar af járnsteyptum minningarmörkum. Það eru aðallega krossar og járnsteypt grindverk og eru hlutfallslega mörg slík minningarmörk varðveitt hér á landi. Algengt var erlendis að farið væri í kirkjugarða og safnað saman járnsteyptum grindverkum og krossum og járnið nýtt til hergagnagerðar í styrjöldum. Við búum að því að hér voru ekki styrjaldir og þess vegna hafa krossar og grindverk við leiðin varðveist. Jafnframt eru merkileg dæmi um fagurt handverk og hönnun íslenskra járnsmiða og má segja að garðurinn sé söguleg heimild fyrir ýmsar iðngreinar svo sem járnsmíði. Eins og bent er á í greinargerðinni hefur þar varðveist eitt merkasta og heillegasta safn minningarmarka á Íslandi, og þó víðar væri leitað, því að sagan í garðinum nær yfir nærri 170 ára tímabil.

Sagt hefur verið að garðurinn sé eitt mesta útiminjasafn landsins. Gönguferð um garðinn er gönguferð um söguna. Hún er líka gönguferð um menninguna, um listir og listþróun og stjórnmálasöguna. Staðið hefur verið fyrir slíkum göngum í garðinum sem hafa verið ákaflega skemmtilegar. Ég hef tekið þátt í gönguferðum um garðinn, t.d. ljóðagöngu þar sem var farið milli leiða og lesin upp ljóð eftir okkar ástsælu ljóðskáld. Sömuleiðis er hægt að segja frá ritverkum, stjórnmálamönnum o.s.frv. Þetta er því mjög merkilegur garður sem gefur mikla möguleika, t.d. til að taka á móti ferðamönnum eða fræða skólabörn um söguna og alla þá þætti sem ég nefndi. Því verður að vernda garðinn og viðhalda honum svo að komandi kynslóðir fái notið þeirrar þjóðargersemar sem hann er.

Í fyrsta sinn sem ég lagði málið fram vildi ég að garðurinn yrði gerður að sérstakri þjóðargersemi Íslendinga. Nefndin sem mun taka málið að sér getur hugað að því þegar búið verður að samþykkja þingmálið — sem ég trúi ekki öðru en verði gert — því að full ástæða er til að lýsa hann sem slíkan. Jafnframt er talað um að flokka mætti garðinn sem þjóðararf eins og t.d. Bretar gera, þeir hafa lýst ýmsar gersemar undir National Heritage Act, sem þjóðargersemar eða þjóðararf. Við getum litið til annarra landa sem varðveitt hafa og friðlýst þjóðargersemar sínar með þessum hætti.

Mér fannst gaman að fá tölvupóst frá sagnfræðingi í Reykjavíkurakademíunni þegar ég var að fara að mæla fyrir málinu í fimmta sinn. Hún heitir Sólveig Ólafsdóttir og er meistaranemi í menningarstjórnun við Háskólann í Bifröst. Hún undirbýr nú meistaraprófsverkefni í menningarstjórnun við háskólann þar sem hún tekur fyrir framtíð Hólavallagarðs. Það finnst mér ákaflega vel til fundið. Sólveig hefur skilgreint verkefnið út frá mikilvægi garðsins og spyr nokkurra spurninga með það í huga að gera Hólavallagarð að safni. Hún veltir fyrir sér hvaða safnform mundi þá henta garði eins og honum. Síðan fjallar hún um menningarsögulegt gildi garðsins, hvort hann sé það sérstakur að hann sé tækur á skrá European Heritage eða Evrópuminja og hvort hann sé tækur á heimsminjaskrá UNESCO. Ýmislegt fleira tiltekur Sólveig um verkefni sitt sem áhugavert er að skoða. Það verður fróðlegt að sjá að hvaða niðurstöðum hún kemst í meistaraverkefni sínu.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að hugað verði að þessum málum og í leiðinni mætti athuga hvort ekki sé ástæða til að breyta lögum í þá veru að hægt verði að vernda og friða gamla og merka garða. Ég nefni garð eins og Alþingisgarðinn við Alþingishúsið en hann er elsti almenningsgarður á Íslandi og er full ástæða til að vernda hann. Honum hefur að vísu aðeins verið raskað frá því að ég lagði málið fyrst fram. Full ástæða er til athuga hvort ekki væri hægt að breyta lögum í þá veru að vernda garða eins og Alþingisgarðinn og aðra merka garða sem við eigum, ekki bara hér í Reykjavík heldur hvar sem er á landinu. Það eru víða mjög merkir garðar sem full ástæða er til að vernda.

Áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, vil ég nefna að mikilvægt er að nefndin, sem skipuð verður til að vinna að málinu, tryggi að nægilegt fjármagn fáist til að setja kraft í þá vinnu sem þarf til að vernda minningarmörkin. Hún er nauðsynleg til að vernda Hólavallagarð þannig að hann geti staðið undir nafni sem einn af merkustu kirkjugörðum á Íslandi og jafnvel í Norður-Evrópu ef ekki í Evrópu allri.