135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

varðveisla Hólavallagarðs.

51. mál
[16:38]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að flytja þetta mál. Þótt hún hafi verið ein síns liðs að þessu sinni heyri ég að málið hefur verið til umræðu á þingi oft áður.

Kirkjugarðurinn, Hólavallagarður, sem ég held að flestir Íslendingar kalli gamla kirkjugarðinn eða kirkjugarðinn við Suðurgötu, er mjög merk vin í miðjum Vesturbæ Reykjavíkur. Svo hagar til hjá mér þessa dagana að ég dvel aðeins hluta vikunnar í Reykjavík og hef þá aðsetur í Vesturborginni. Þá reyni ég að ganga til vinnu, ekki síst vegna þess að þá geng ég í gegnum garðinn. Það er mikið skjól í honum og hann er svo fallegur þannig að það hvetur mig frekar til þess að sleppa bílnum og ganga af stað. Ég þarf stundum að gæta þess að koma ekki of seint til vinnu þar sem ég get hreinlega týnt mér í að skoða þær minjar sem er að finna í garðinum.

Garðurinn er í eðli sínu listasafn, útilistasafn. Hann hefur, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á, afar merkilegt menningarsögulegt gildi og tengist bæði jákvæðum og neikvæðum atburðum í sögunni. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er þar að finna sögufrægar persónur sem tengjast sjálfstæðisbaráttu okkar, listamenn og fleiri slíka, en einnig er þar að finna minningar um þær erfiðu aðstæður sem við höfum þurft að glíma við, t.d. þegar plágur riðu yfir landið og er kannski nærtækast að minnast spænsku veikinnar. Þegar komið er að norðausturhluta garðsins er varla hægt að ganga þar um vegna þess hversu þröngt er um grafir. Á tímabili var sífellt verið að grafa fólk, hörmungin í bænum var mikil og mikilvægt er að muna það. Það eru ekki bara hinir fallegu legsteinar sem eru gríðarleg listaverk heldur líka litlar grafir þar sem börn eru jarðsett. Reyndar liggja stundum heilu fjölskyldurnar saman. Það er gott að því skyldi ekki hafa verið breytt þegar farið var að skipuleggja garðinn, þá hefði því horni, sem ég tiltek sérstaklega, ef til vill verið raskað. Grafirnar hefðu kannski verið skipulagðar með þeim hætti að auðveldara væri að komast að þeim. Mér finnst sá þáttur vera dramatískastur þegar ég fer um garðinn og ég held að okkur sé öllum hollt að ganga um hann og anda að okkur sögunni sem þar er.

Mér finnst greinargerðin sem fylgir tillögunni afar góð og fróðleg. Vel er að málinu staðið hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Fram kemur í greinargerðinni að ekki sé skýrt í lögum um friðun garða eins og er um hús, það fannst mér fróðlegt. Það er nokkuð sem er virkilega áhugavert fyrir okkur að skoða því að það er ekki bara gamli kirkjugarðurinn í Reykjavík sem er merkilegur heldur einnig garðar víða um land, kirkjugarðar sem eiga nákvæmlega sömu sögu, bara í smærri mynd. Fólk lagði mikið á sig til að sýna látnum ástvinum virðingu, stundum af vanefnum, með því að setja í þá fagra steina og rækta garðana jafnvel mun betur en í kringum eigin hús og það gerir þá svo fallega og einstaka. Það sjáum við úti um allt land, jafnvel á þeim stöðum þar sem byggð hefur lagst af, enn eimir eftir af görðunum og sumir hverjir eru orðnir lúnir en skipta gríðarlegu máli fyrir menningararf okkar. Það skiptir einnig máli fyrir ferðaþjónustuna að horfa á kirkjugarðana í þessu samhengi.

Kirkjugarðar eru oft vel staðsettir í bæjum og þess vegna er það alveg rétt sem flutningsmaður nefndi áðan, að þeim hefur gjarnan verið raskað víða um heim. Mér þótti áhugavert að heyra um stríðsreksturinn, járnsmiðina og smíðajárnið í garðinum, það er mjög áberandi í kirkjugarðinum við Suðurgötu og raunar í íslenskum görðum. Langt er síðan kirkjugörðum á Íslandi hefur verið raskað með þeim hætti sem við höfum séð annars staðar. Við vitum náttúrlega um gamla kirkjugarðinn við Ingólfsbrunn, ég man ekki í svipinn hvað hann heitir, (Gripið fram í.) já, ég heyrði ekki alveg, fyrirgefið, hvað hv. þingmaður sagði, en nafnið er stolið úr huga mér akkúrat núna. (Gripið fram í.) — Víkurgarður já, þakka ykkur fyrir. Það fór svolítið öðruvísi um hann en hinn stóra garð sem við höfum við Suðurgötuna.

Mig langaði til að benda á þessa ákveðnu hluti og þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að halda málinu á lofti. Ég vona svo sannarlega að nú muni þingsályktunartillagan verða afgreidd. Mikill bragur væri á því fyrir okkur ef við gætum afgreitt hana og varðveitt kirkjugarðinn við Suðurgötu fyrir ókomnar kynslóðir.