135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

varðveisla Hólavallagarðs.

51. mál
[16:44]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga um varðveislu Hólavallagarðs sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er flutningsmaður að, mjög merkileg. Mig langar til að leggja hér nokkur orð í belg af því að það er svo gaman að lesa greinargerðina með tillögunni og ég er svo sammála mörgu sem þar kemur fram.

Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir hvaða merkilega fyrirbæri þarna er á ferðinni, sem er þessi ótrúlega fallegi kirkjugarður. Ég held að við lítum almennt svo á að þetta sé afar fallegur og sérstakur garður á góðum stað í borginni og lítum hann þannig jákvæðum augum en ég er ekki viss um að við gerum okkur grein fyrir hve mikil menningarverðmæti felast í raun og veru í garðinum. Það kemur mjög vel fram í greinargerðinni og bara það að garðurinn sé elsti óspillti kirkjugarður í Norður-Evrópu og jafnvel í Evrópu er mjög merkilegt í sjálfu sér. Að í Reykjavík sé líklega elsti óspillti kirkjugarður í Norður-Evrópu er eitthvað sem ég tel að við eigum að staldra við og íhuga nánar.

Hólavallagaður er eins og hann var frá upphafi, honum hefur ekki verið breytt neitt. Það er mjög ólíkt því sem má sjá í öðrum eldri kirkjugörðum á Norðurlöndunum. Þar hefur kirkjugörðum verið breytt, þeir hafa verið sléttaðir og skipulagðir upp á nýtt o.s.frv. en þessi kirkjugarður er nánast algjörlega óhreyfður. Þar hafa ekki verið skipulagðir stígar utan einn sem settur var einhvern tímann í gegnum garðinn frá Ljósvallagötu að Suðurgötu. Engir hlutar hans hafa verið sléttaðir til að koma fyrir bekkjum eða öðru slíku. Heildarsvip garðsins hefur ekki verið raskað og hann er þess vegna eins og hann var.

Það kemur líka fram að þarna er að finna mjög margar gróðurtegundir og þær eru mjög lýsandi fyrir þann tíma sem garðurinn var að gróa upp, t.d. einkennandi gróður frá eftirstríðsárunum.

Það segir líka að þarna komi fram saga iðnaðarins að vissu leyti, svo sem í formi minningarmarka sem sum eru járnsteypt, járnsteypt grindverk, grindverk úr smíðajárni. Slík verk hafa meira og minna farið forgörðum erlendis, m.a. af því að menn bræddu járnið, það þurfti að nota járnið í stríðinu, en slíkt var ekki gert hér. Þarna er menningar- og listasagan samankomin að mörgu leyti, t.d. eru þarna lágmyndir eftir listamennina Einar Jónsson og Ríkharð Jónsson. Þessi minningarmörk eru langflest heil, það er mjög lítið um brotin verk í garðinum.

Mér finnst þetta stórmerkilegt mál og ég vona líka, eins og komið hefur fram hjá fleiri þingmönnum, að við samþykkjum tillöguna. Ég mundi vilja greiða henni atkvæði.

Það kemur fram í greinargerðinni að á vegum Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma er til svokölluð þróunarnefnd. Sú hugsun er því til staðar að vernda eigi garðinn þótt ekki sé kannski búið að taka skýrt skref að því leyti, a.m.k. ekki eins skýrt og hv. flutningsmaður leggur hér til. Það er þó er verið að huga að garðinum og Þjóðminjasafnið er búið að kortleggja þessi minningarmörk, þannig að það er nú þegar búið að afla alls konar heimilda um garðinn.

Ég sé líka að Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður er jákvæð gagnvart málinu og hefur dregið það fram að nálægðin við Þjóðminjasafnið auki gildi garðsins að einhverju leyti líka, að það sé hægt að tengja hann svolítið við Þjóðminjasafnið.

Hólavallagarður var tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005 og það lýsir hvaða gildi hann hefur og er mjög áhugavert að velta því fyrir sér hvort hægt sé að fá hann viðurkenndan sem Evrópuminjar. Ég held að það væri vel athugunar virði.

Vegna hinnar hnattrænu þróunar sem við sjáum í dag og hins mikla hraða í öllum samfélögum, heimurinn er að minnka og menn upplifa rótleysi í hnattvæðingunni, þá hafa margir undirstrikað hve mikilvægt það er að við þær aðstæður þekki íbúar hvers lands rætur sínar til að sjálfsmyndin glatist ekki. Að við verðum að hafa sterka sjálfsmynd í þessum hraða og þeim miklu breytingum sem eiga sér stað í öllum samfélögum heimsins í dag. Ég tel að ein af rótum okkar á Íslandi sé þessi kirkjugarður. Ef okkur tekst að vernda hann, gæta þess að hann eyðileggist ekki og honum sé sýndur fullur sómi, að hann fái að vera þarna, að við sléttum hann ekki og byggjum ekki háhýsi þar, svo ég taki drastískasta dæmið sem manni getur dottið í hug, þá held ég að við ýtum undir sjálfsmynd okkar.

Hólavallagarður er hluti af sögu okkar og rökin eru of mörg með því að vernda hann og sýna honum sóma til að hægt sé að fallast á annað en að það verði gert með einhverju móti. Ég held að það sé góð hugmynd sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir bendir á í þingsályktunartillögunni, að setja nú á stofn nefnd á vegum umhverfisráðherra en ekki menntamálaráðherra. Ég tel að hér sé mjög athyglisvert mál á ferðinni sem hjálpar okkur við að varðveita sjálfsmynd okkar og er kannski mun merkilegra mál en margir gætu haldið við fyrstu sýn. Ég tek undir með flutningsmanni og hefði sjálfsagt verið með á málinu ef mér hefði boðist það en ég er mjög ánægð með þetta mál.