135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:22]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hefði kosið að hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, væri viðstödd þessa umræðu og einnig hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Þau þrjú fyrstnefndu ættu að sjá sóma sinn í að vera hér og ræða jafnmikilsvert mál. Þetta er mikilsvert mál sem skiptir gríðarlega miklu fyrir náttúru Íslands. Ég óska eftir því við frú forseta að þessum aðilum verði gert viðvart um þá umræðu sem hér fer fram.

Uppi eru áform um að reisa þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun, og enn standa yfir svokallaðar samningaviðræður Landsvirkjunar við landeigendur. Staðan er reyndar sú að landeigendur á þessu svæði hafa verið í gíslingu svokallaðra samningaumræðna í heil tíu ár eða lengur. Eigendur á Skálmholtshrauni og ábúandinn í Akbraut og víðar hafa ekki getað nýtt eignir sínar vegna þess að svipa Landsvirkjunar hefur sveiflast yfir þeim. Hvorki hefur verið gengið til samninga né hafa nokkrar ákvarðanir verið teknar. Það er óskaplega bagalegt fyrir kúabónda að geta ekki einu sinni endurnýjað fjósið eða gert nokkurn skapaðan hlut.

Þessi virkjunaráform hafa mætt verulegri mótstöðu og andstöðu í öllum flokkum enda er fórnarkostnaðurinn mikill og óvissuþættirnir mjög margir. Ég man ekki betur en að í skoðanakönnun í aðdraganda kosninga í vor hafi um eða yfir 60% íbúa í kjördæminu, Suðurkjördæmi, lýst yfir andstöðu við virkjanirnar. Við eigum að taka mark á slíku.

Ég vil segja, varðandi þessar þrjár virkjanir og svokölluð manngerð svæði sem má eyðileggja bara af því að þau eru manngerð, að á 50 km kafla mun ásýnd og eðli Þjórsár taka algjörum stakkaskiptum. Henni verður ýmist veitt úr farvegi sínum í göng eða skurði eða í hana settar stíflur og lón mynduð og áin tekin úr sambandi á löngum köflum fyrir neðan stíflurnar. Þetta heitir að breyta náttúru landsins, bæði manngerðri og óspilltri náttúru.

Ég vil líka vekja athygli á því að sérstaða svæðisins er slík að afar varhugavert er að byggja þar virkjanir. Hvergi á byggðu bóli í heiminum hafa virkjanir verið reistar á svæði sem eru jarðfræðilega sambærileg þessu svæði. Svæðið liggur á flekaskilum og myndar sjálfstætt fleka- og sprungusvæði, svonefndan Hreppafleka, og þar eiga Suðurlandsskjálftar upptök sín. Flekasvæðið er á milli heimsflekanna tveggja og liggur þvert á þá og gríðarlegar hræringar eru þar í kring eins og Sunnlendingar upplifðu nú nýlega eða Selfyssingar og Árborgarbúar.

Myndast hefur ótrúlegur fjöldi sprungna í áranna rás enda eru jarðlögin þar mjög óþétt. Það kom berlega í ljós við Suðurlandsskjálftana árið 2000 þegar nýjar sprungur mynduðust. Áin er mjög óþétt og hún hvílir á óþéttum grunni. Allt öðru máli gegnir um Hvítá t.d. sem er á þéttum grunni. Þegar þessar nýju sprungur mynduðust við Suðurlandsskjálftann árið 2000 hljóp vatn eftir þeim með þeim afleiðingum að grunnvatnsstaða gjörbreyttist og tún í nágrenni árinnar ýmist spilltust eða gjöreyðilögðust. Undir fyrirhuguðum lónum eru gamlar jarðskjálftasprungur, við fyrirhugað lón og í öllu nágrenni. Þær sprungur munu fyllast af vatni verði lónin byggð.

Komið hefur í ljós að rennsli er milli Þjórsár fyrir ofan Skálmholtshraun og þar niður í Hvítá fyrir neðan Vörðufell. Í flóðum í Þjórsá kemur jökulvatnið upp í mýrum og upp í brunnum niðri á Skeiðum og neðan jarðar er rennsli sem kemur fram í Hvítá sunnan Vörðufells þannig að tengslin eru örugg. Jarðvatnsstaðan mun því hækka og spilla landi og hætta á flóðum mun aukast. Það er enginn að tala um að stíflurnar bregðist en þarna eru gríðarlegir stíflugarðar sem geta farið.

Það er fullkomlega ljóst að með þessum virkjunum mun ásýnd Þjórsár taka miklum breytingum og mun það hafa óbætanleg og óafturkræf áhrif á allt jafnvægi jarðvegs, gróðurs og dýralífs. Árniðurinn mun hverfa á mörgum stöðum sem menn hafa nýtt til veðurspár. Varpsvæði fugla og farsvæði munu breytast og skemmast. Lindarsvæði anda munu spillast. Og það sem verra er, sandfok og uppblástur verður upp úr ánni á löngum köflum þar sem hún er þurrkuð fyrir neðan stíflu. Þar mun rennsli ýmist vera 10 rúmmetrar og upp í 40 rúmmetra eftir árstíma þannig að ekki tekst að græða árbakkana vegna þess að vatnið fer stöðugt yfir þá.

Ekki eru Búðafoss, Hestfoss, Urriðafoss, Hagaey eða Árnes manngerð mannvirki? Allir þessir fossar verða eyðilagðir og Hagaey og Árnesi sökkt að hluta. Það gerist líka fleira. Veruleg hætta er á því að fiskgengd, laxagengd, í ána hverfi. Sex þúsund laxar ganga í ána á ári og hluti þeirra síðsumars í þverárnar ofarlega í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Það er engin trygging fyrir því í skýrslum á umhverfismati að sá laxastofn haldist. Þau rök hafa verið sett fram að það sé á valdi sveitarfélaga að stöðva þessar virkjunarframkvæmdir, þannig hefur Samfylkingin hlaupið í röksemdarholur Framsóknarflokksins frá því fyrir kosningar í vor, í músarholur Framsóknarflokksins.

Við höfum allt vald til að stöðva þessar framkvæmdir og ríkisstjórnin sem eigandi Landsvirkjunar hefur allt vald, rétt eins og aðalfundur hlutafélags getur tekið völdin af framkvæmdastjóra og stjórn, það er ekkert flóknara. Þessar framkvæmdir uppfylla engan veginn þau skilyrði að teljast sjálfbær landnýting en það er skilyrði sem við höfum gengist undir, m.a. með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Það er því sama hvert litið er, á jarðfræði, á vatnafar, á dýralíf o.fl., þarna verða unnin óbætanleg spjöll.