135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:32]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessar athugasemdir sem ég er reyndar ósammála. Ég ætla fyrst að taka fram að rammaáætlunin hefur aldrei verið staðfest, í þessu dæmi. Jafnvel þótt hún væri í gildi og gæfi „bestu“ einkunn þá fengju þessi virkjanaáform falleinkunn í mínum huga eftir að hafa farið mjög gaumgæfilega yfir málið í meira en ár. Hluta af þessum sjónarmiðum lýsti ég í ræðu minni og ég mun gera þeim betri skil.

Gagnvart náttúruspjöllum og umhverfisfórnum koma mótmæli aldrei of seint fram. Virkjanir í Henglinum svo ég víki að þeim, þá ég er alfarið á móti þeim. Það er dæmigert umhverfismatið fyrir nýju virkjunina hvernig alvarlegar athugasemdir sem þar koma fram eru gengisfelldar. Þær eru gengisfelldar af Orkuveitu Reykjavíkur, til að mynda lyktarmengunin sem sjálfstæðismenn í Hveragerði hafa borið gæfu til að taka upp og leggjast gegn. Ég er eiginlega stoltur af sveitarstjórninni og bæjarstjórninni í Hveragerði að rísa upp og gagnrýna þetta. Lyktin á að vera ásættanleg, segir í umhverfismati, vegna þess að þar er aðeins um að ræða 60–70 daga á ári. Hvað mundum við segja í Reykjavík eða í Árborg eða annars staðar við því að búa við 60–70 daga ólykt á ári?

Svo vil ég bara segja, hv. þingmaður, að ég tek fullt mark á sveitarstjórnum. Ég virði ákvarðanir sveitarstjórna. Ég vil taka það fram. Ég tel hins vegar að ákvörðunarvald í þessum málum ætti ekki að vera í höndum sveitarstjórna enda varðar þessi mál ekki bara eina sveitarstjórn heldur allt landið og heiminn.