135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:09]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Atla Gíslasonar að hann væri hér um bil sammála því að byggja rennslisvirkjanir í Neðri-Þjórsá. Ef virkjanir væru án lóna gæti hann fallist á slíkar framkvæmdir eftir því sem mér heyrðist, eða fast að því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann telji að slíkum virkjunum verði fyrir komið þarna og hversu örugg raforkuafhending yrði úr slíkum virkjunum. Það er grundvallaratriði í vatnsaflsvirkjunum að öruggt vatnsrennsli í ánum sé tryggt. Mér leikur forvitni á að vita hvernig þingmaðurinn sér þetta fyrir sér og hvort hann hafi fyrir sér skoðanir færustu vísindamanna á þessu sviði hvað þetta varðar.

Eins langar mig til að ræða við hann og fá svör hjá honum, í tengslum við þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, við því að ríkisstjórnin sjái til þess að hætta við allar framkvæmdir og stöðu sveitarstjórna í þessu máli, og þá sérstaklega hvenær mál eru þess eðlis að þau eigi ekki lengur að vera á forræði sveitarstjórna, hver eigi að taka slíkar ákvarðanir, hvernig eigi að gera það og hvaða stöðu sveitarstjórnir hafi þegar um slík mál er að ræða.