135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:10]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal spyr hæstaréttarlögmanninn, sem hér stendur, sem vísindamann á sviði raunvísinda og jarðfræði og náttúruvísinda. (Gripið fram í.) Ég hef þessar skoðanir mínar frá vísindamönnum, já, sem hafa lýst því. Þeir hafa hins vegar lýst því að þessi aðferð gefi minni orku, ég veit ekki hversu mikið, ég hef heyrt töluna 30–40%. Ég hef heyrt að þessu sé vel við komandi. Ég hef bent á þetta sem sáttaleið í þessu máli í því skyni að koma megi á friði í þessum hreppum sem eru klofnir upp tvennt. Ég hygg, og hef sagt það, að ríkisstjórnin ætti að stöðva þetta, stöðva þann ófrið sem þarna ríkir og getur gengið í kynslóðir.

Að því er varðar forræði sveitarstjórna geri ég mér fulla grein fyrir því að sveitarstjórnir gefa út framkvæmdaleyfi og eitt og annað og hafa mikið um þetta að segja. Ég vil að forræði þessara mála verði öðruvísi, það verði hjá ríkinu, það verði heildstætt. Umhverfismálin eru hnattræn og við eigum ekki að koma sveitarfélögum í þá ómögulegu aðstöðu, eins og reyndin sýnir í Flóahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, að þurfa að taka svona umdeildar ákvarðanir. Við verðum að breyta lögunum að því leyti.

Þar fyrir utan hafa sveitarfélögin enga burði til að standa undir því vísindastarfi sem þessar stóru virkjanir kalla á. Þau hafa ekki burði til að fara yfir umhverfismatið og gefa út framkvæmdaleyfi með því að kaupa út vísindamenn og aðstoðarmenn sem þurfa að gera þetta með faglegum og góðum hætti. Þessum málum er því illa fyrir komið í dag og því þarf að breyta.