135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:12]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég misskil hv. þm. Atla Gíslason í þessum síðustu orðum hans. Er hann þá að gera því skóna að þingmenn í sölum Alþingis hafi betri þekkingu til þess að meta niðurstöðu vísindamanna en sveitarstjórnarmenn? Ef svo er þykja mér það reyndar í sjálfu sér heilmikil tíðindi.

Varðandi þessar virkjanir að öðru leyti hygg ég að við séum sammála því að landið okkar sé það dýrmætasta sem við eigum og við þurfum líka að lifa af því. Það höfum við gert, þjóðin hefur lifað með þessu landi í þúsund ár. Þær virkjanir sem eru nú þegar komnar í Þjórsá, eða á svokölluð Þjórsártungnasvæði, mala gull fyrir þjóðarbúið. Ég er hrædd um að við séum kannski ekki sammála því að þær yrðu teknar úr sambandi og þá horfi ég á þær virkjanir sem heita t.d. Búrfells-, Sigöldu- og Sultartangavirkjun, Hrauneyjarfoss og fleiri virkjanir þar.

Ég vil ítreka þetta og spyrja hv. þingmann enn og aftur að því hvort hann sé með þessu að segja að sveitarstjórnarmenn séu ekki til þess bærir að taka afstöðu til þeirra gagna sem þeir fá frá færustu vísindamönnum þjóðarinnar og hvort það sé afstaða hans að hv. alþingismenn séu færari til slíkra ákvarðana en sveitarstjórnir. Jafnvel þótt vald yrði tekið frá sveitarstjórnum og fært eitthvert annað liggur það fyrir að þegar um er að ræða framkvæmdir heima í héraði verða alltaf um það deilur. Það eru líka deilur hér á þingi um það hvernig hlutirnir eigi að fara. Ég treysti sveitarstjórnarmönnum í héraði fullvel til þess að geta talað saman eftir sem áður og utan funda þótt menn takist á um einstök mál.